Rithöfundarnir ungu Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson fengu staðfesta inngöngu í Rithöfundasamband Íslands í desember og urðu þar með yngstu meðlimir sambandsins. 
Til þess að gerast meðlimur í sambandinu þarf rithöfundur að hafa skrifað og sett upp tvær sýningar í atvinnuleikhúsi eða skrifað og gefið út tvær bækur hjá viðurkenndu bókaforlagi.

Stjórnendur Gaflaraleikhússin segja það mikinn heiður að hafa fóstrað þessa tvo yngstu meðlimi Rithöfundasambandsins frá upphafi ferils þeirra sem rithöfundar og leikskáld.

Fyrsta leikverkið – Unglinginn – skrifuðu þeir þegar þeir voru 13 og 14 ára og fyrsta bókin þeirra – Leitin að tilgangi unglingsins – fylgdi svo árið eftir (skrifuð í samvinnu við Bryndísi Björgvinsdóttur). Árið 2016 kom annað leikverk þessara ungu höfunda og hét það Stefán rís. Aldrei hafa jafn ungir höfundar skrifað svo mörg leikverk sem hafa verið sett upp í atvinnuleikhúsi.

Sýningin Fyrsta Skiptið, sem enn er í sýningu í Gaflaraleikhúsinu, er þeirra þriðja leikverk en þeir skrifuðu það ásamt öðrum í leikhópnum. Sýningin hefur gengið fyrir fullu húsi í í allan vetur og ekki ein sýning hefur ekki verið uppseld!

Gagnrýnandi Morgunblaðsins sagði hana vera fyndnustu sýningu leikhúsanna og nefndi hana um síðustu áramót sem eina af 7 bestu sýningum vetrarins.

Arnór og Óli Gunnar lengst til hægri í efri og neðri röð. Mynd/OBÞ