Vegna fréttar um byggingu knattspyrnuhúss á Ásvöllum

Þann 16. janúar bárust fréttir af því að bæjarráð Hafnarfjarðar hefði samþykkt samning um byggingu knattspyrnuhúss á Ásvöllum. Það verður gleðiefni þegar knattspyrnuhús verður risið á Ásvöllum. Hins vegar komu þessar fréttir stjórn Sörla verulega á óvart, því í marga mánuði hefur stjórnin leitað eftir samningi við Hafnarfjarðarbæ um byggingu nýrrar reiðhallar, án árangurs.

Loforð um að virða forgangsröðun ÍBH

Fulltrúar Hafnafjarðarbæjar, þ.m.t. bæjarstjóri og aðrir kjörnir stjórnendur meirihlutans hafa ítrekað sagt, bæði í ræðu og riti, að ekkert annað komi til greina af hálfu bæjarins en að virða þá forgangsröðun um byggingu íþróttamannvirkja sem samþykkt hefur verið af Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar, þar sem öll íþróttafélög bæjarins eiga hlut að máli. Þegar byggingu nýs körfuboltahúss fyrir Hauka og byggingu nýs knattspyrnuhúss fyrir FH í fullri stærð var lokið var, næsta verkefni á vegum Hafnafjarðarbæjar, bygging reiðhallar fyrir hestamannafélagið Sörla. Svo knatthús fyrir Hauka.

Sala lóða rennur til uppbyggingar íþróttamannvirkja

Ljóst er að hvorki er gert ráð fyrir byggingu reiðhallar eða knatthúss í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 sem samþykkt var fyrir áramót í bæjarstjórn, en vilyrði um að sala á lóðum undir íbúabyggð á svæði sem Haukar skiluðu til Hafnafjarðarbæjar, annars vegar og hins vegar af sölu hesthúslóða á félagssvæði Sörla muni renna til uppbyggingar hjá félögunum. Og að fjárveitingar komi til skoðunar þegar fjárhagsáætlun endurskoðast í mars. Ekki búa öll íþróttafélög bæjarins svo vel að geta skilað byggingarlandi til bæjarins eða látið skipuleggja lóðir til að selja. Það er frábært að geta hjálpað til við hröðun framkvæmda með fé sem fæst með þessum hætti, en þetta eru samt sem áður sameiginlegir sjóðir Hafnfirðinga og því á fagleg forgangsröðun alltaf að ráða. Það á ekki að vera hægt að kaupa sig fram fyrir röðina. Íþróttafélögin eiga ekki tilkall til þessara fjármuna. Ráðstöfun þeirra er ákvörðun kjörinna fulltrúa hverju sinni.

Reiðhöll á undan knattspyrnuhúsi samþykkt af íþróttabandalagi Hafnarfjarðar, ÍBH

Það starf sem fram fer innan ÍBH er mjög umfangsmikið og mikilvægt fyrir allt íþróttalíf í Hafnarfirði. Þar er reynt að taka faglega á þeim verkefnum sem íþróttahreyfingin í Hafnarfirði fjallar um og mynduð tengsl milli íþróttafélaga og samstarf milli þeirra um uppbyggingu alls íþróttalífs í Hafnarfirði. Eitt af verkum ÍBH er að vinna að forgangsröðun um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hafnarfirði. Niðurstaða þess samstarfs á síðasta þingi ÍBH var m.a. að staðfesta að bygging nýrrar reiðhallar Sörla ætti að vera í forgangi. Þá hafði þegar verið lokið við byggingu nýs körfuboltahúss fyrir Hauka og lokið fjármögnun nýs knatthúss fyrir FH í fullri stærð. Mikil samstaða náðist um þetta verkefni meðal smærri íþróttafélaga í Hafnarfirði, sem flest öll hafa horft á nær allt framkvæmdafé Hafnarfjarðarbæjar í íþróttamálum fara til tveggja félaga.

Það er ljóst að íþróttahreyfingin í Hafnarfirði hefur ákveðið að næsta framkvæmd sem ráðist verði í, sé bygging reiðhallar fyrir Hestamannafélagið Sörla. Stjórnvöld bæjarins hafa sagst ætla að fylgja tillögum íþróttahreyfingarinnar og við bindum við það vonir að staðið verði við það samkomulag. Ef ekki, þá væri það þvert gegn samþykktum ÍBH um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hafnarfirði, svik á þegar gefnum loforðum og blaut tuska í andlit allra þeirra íþróttafélaga sem koma að faglegri vinnu innan ÍBH. Það ætlum við engum að óreyndu.

Krafa um að ljúka samningu um uppbyggingu reiðhallar

Fyrir hönd stjórnar Sörla óskum við eftir að bæjaryfirvöld ljúki við samninga við Sörla um byggingu reiðhallar sem allra fyrst, skipaður verði framkvæmdarhópur og öllu ferli varðandi hönnun og undirbúning verði hraðað.

Stjórn Sörla