Kammerkór Hafnarfjarðar fer til höfuðborgarinnar sunnudaginn 19. maí og heldur vortónleika í Háteigskirkju kl. 20:00. Á efnisskránni verða róleg og rómantísk verk úr ýmsum áttum, sem flest hafa verið samin eða útsett á síðustu 25 árum. Meðal annars verða sungin verk eftir Morten Lauridsen, Ola Gjeilo, Arvo Pärt, Pärt Uusberg, Ērik Ešenvalds og fleiri tónskáld.
Auk þess að láta tónlistarhæfileika sína í ljós fá kórfélagar að sýna hvað í þeim býr á tungumálasviðinu, því á tónleikunum munu hljóma samtals tíu tungumál, þar á meðal eistneska, xhosa, samíska og álfatunga. Píanóleikari á tónleikunum er Ástríður Alda Sigurðardóttir. Stjórnandi kórsins er sem fyrr Helgi Bragason.
Miðaverð er 2500 krónur en 1500 krónur fyrir eldri borgara. Miða má kaupa í forsölu hjá kórfélögum eða við innganginn fyrir tónleika. Einnig er minnt á að hægt er að gerast styrktarfélagi kórsins og fá þannig tvo miða á næstu þrenna tónleika. Nánari upplýsingar eru á vef kórsins, kammerkor.is.

Kammerkórinn. Mynd aðsend.
Sýnishorn af æfingu:
https://www.youtube.com/watch?v=Z0DpHmEL1rs