Söngleikjadeild Söngskóla Sigurðar Demetz (SSD) frumsýnir á föstudagskvöld söngleikinn Vorið vaknar í Gaflaraleikhúsinu. Verkið er rokksöngleikur um ungt fólk í skóla á 19. öld í Þýskalandi, byggður á leikriti eftir Frank Wedekind frá 1891. Miðasala er hafin á tix.is. Fjarðarpósturinn kíkti á æfingu.
Myndir/OBÞ
Vorið vaknar er stærsta verkefni vetrarins hjá söngleikjadeild SSD og það má segja að nú séu nemendurnir að uppskera. Frá byrjun eru nemendurnir eru virkir í vali á söngleik vetrarins og undirbúningur hefst strax að hausti með pælingum um sviðsetningu, kóræfingum og leiklistartímum og eftir jól hefjast svo æfingar á söngleiknum. Þátttaka í verkinu er hluti af náminu og taka allir ríkan þátt ýmist í búningagerð, smíða leikmynd, sviðsstjórn, markaðssetningu auk þess að koma fram í sýningunni.
Vorið vaknar er rokksöngleikur um ungt fólk í skóla á 19. öld í Þýskalandi, byggður á leikriti eftir Frank Wedekind frá 1891. Söngleikurinn sjálfur var frumsýndur árið 2006 á Broadway og vann til hvorki meira né minna en átta Tony-verðlauna. Söngleikurinn fjallar um ungt fólk að vakna til náttúrunnar og þröngsýnt samfélagið sem reynir að bæla þau niður.
Börn yngri en 12 ára þurfa að vera í fylgd með fullorðnum. Orri Huginn Ágústsson er leikstjóri og jafnframt þýðandi verksins en tónlistarstjórn er í höndum Ingvars Alfreðssonar en hann er meðleikari söngleikjadeildarinnar. Tæknimenn eru Jóhann Bjarni Pálmason ljós, Kristján Sigmundur Einarsson og Kristinn Gauti Einarsson sjá um hljóð. Þór Breiðfjörð er deildarstjóri söngleikjadeildar og kennari ásamt Jönu Maríu Guðmundsdóttur og Völu Guðnadóttur.
Söngleikjadeildin er nú á sínu sjötta aldursári og starfar af miklum hug að menntun söngleikjalistar hér á landi. Sýning hópsins í fyrra var hinn framsækni söngleikur Heathers í Gamla bíói og auk þess voru valdir nemendur úr öllum skólanum voru einnig hluti af leikhópi/kór í Óperudraugnum í Eldborg, en sú sýning var tilnefnd til Grímuverðlauna á síðasta ári.
Í Söngleikjadeildinni er söngleikarinn í fyrirrúmi og áhersla á söngleikjalistina sem sérstaka listgrein. Okkur þykir afar mikilvægt að hefja veg söngleikjalistar á Íslandi og er söngleikjadeildin ein helsta menntaleiðin fyrir söngvara sem vilja alhliða þjálfun í sviðslistum eða leikara sem vilja bæta sönginn á undan frekara leiklistarnámi á háskólastigi.
Nemendur fá persónulega þjálfun hjá reyndum kennurum í söng ásamt því að kennd er leiklist og hreyfing á sviði. Nemendur eru þjálfaðir í inntökuprófum fyrir áframhaldandi nám í sviðslistum. Nemendur úr söngleikjadeildinni okkar hafa unnið þjóðþekktar hæfileikakeppnir, farið erlendis í fjölbreytt sviðslistanám og meira að segja dægurlagasmiðanám fyrir söngvara. Námið er þannig fjölbreyttur undirbúningur fyrir frekara háskólanám eða fyrir líf og störf. Hægt er nú að taka söngleikjanámið sem hluta af stúdentsprófi í samstarfi við Fjölbrautaskólann í Ármúla.
Nánari upplýsingar og umsóknir: www.songskoli.is