Nú er hafin undirskriftasöfnun vegna kröfu um að haldin verði íbúakosning um þá ákvörðun bæjarráðs að selja hlut Hafnfirðinga í HS Veitum. Við sem stöndum að undirskriftasöfnuninni teljum að leita eigi til íbúa með svo stóra ákvörðun, en HS Veitur er samfélagslega mikilvægt fyrirtæki sem Hafnfirðingar hafa tekið þátt í að byggja upp í áranna rás.

Þann 22. apríl samþykkti meirihluti bæjarráðs að hefja sölu á hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum. Tveimur dögum síðar hafði Kvika banki fengið verkefnið í sínar hendur, en bæjarfulltrúar minnihlutans fréttu ekki af því fyrr en 7. maí þegar Kvika auglýsti hlutinn til sölu í fjölmiðlum. Þá óskaði fulltrúi minnihlutans eftir svörum um aðkomu Kviku og þar kom fram að markmiðið væri að selja hlutinn „fyrir sumarleyfi“.

Það er að okkar mati ólýðræðislegt að taka ákvörðun um sölu á hlut bæjarbúa í HS Veitum með þessum hætti. Þá vekur furðu þessi mikli hraði og leynd sem virðist hvíla yfir ferlinu. Það er ósk okkar að söluferlið verði sett á ís þar til undirskriftasöfnunin og væntanleg íbúakosning er yfirstaðin. 

Hvort sem þú, kæri lesandi, ert fylgjandi fyrirugaðri sölu á hlut bæjarbúa í HS Veitum eða ekki þá hljótum við öll að vera sammála um að slíka ákvörðun eigi ekki að taka án þess að spyrja bæjarbúa álits. Stöndum saman og virkjum íbúalýðræðið. Með samstilltu átaki mun okkur takast að knýja fram íbúakosningu um málið.

Hægt er að skrifa undir kröfuna á vefsíðunni https://listar.island.is/Stydjum/72.

Frekari upplýsingar og umræðu um málið má nálgast á Facebook-síðunni “Íbúalýðræði”.

 —

Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, 

Talsmaður samtakanna Íbúalýðræðis og ábyrgðarmaður undirskriftasöfnunarinnar.