Örn Almarsson, hafnfirskur efnafræðingur búsettur í Massachusetts í Bandaríkjunum, er einn þeirra sem vinna nú að mögulegu bóluefni gegn kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Örn starfar hjá fyrirtækinu Moderna og þar hefur m.a. verið unnið að þróun á bóluefnum í nokkur ár. Í viðtali í Morgunblaðinu sem birt var á dögunum segir Örn að COVID-19 sjúkdómurinn sé mjög nýr og genasamsetning hans ekki þekkt fyrr en í byrjum ársins 2020. Bandaríska heilbrigðisstofnunin (NIH) hafi hvatt til þess að unnið yrði að bóluefni gegn veirunni með hraði, og Moderna, hafi tekið það verkefni að sér.

Örn segir þó að einungis sé um að ræða fyrsta stig en heilmikil vinna eigi eftir að eiga sér stað áður en fullbúið bóluefni gegn kórónuvírusnum verður komið á markað og í samtali við Morgunblaðið gæti það tekið um ár að koma fullbúnu bóluefni á markað. Örn hefur verið búsettur í Bandaríkjunum sl. 30 ár. Sjá nánar í viðtalinu hér.

Innan við 50 dagar síðan allt var sett í gang
Miklar annir eru hjá Erni um þessar mundir og við vildum ekki trufla hann of mikið svo að við höfðum samband við föður Arnar, lyfjafræðinginn og fyrrum eiganda Apóteks Hafnarfjarðar, Almar Grímsson. Almar, og eiginkona hans Anna Björk Guðbjörnsdóttir, eru að vonum stolt af syni sínum, sem Almar segir vera ekta Gaflara, enda fæddur á Sólvangi. „Örn er fyrst og fremst er að vinna að heiman núna í símanum. Þetta verkefni hjá honum kom vegna þess að þetta hefur verið kapphlaup frá því að veiran skaut upp kollinum. Genasamsetning vírussins var birt um miðjan janúar og bóluefnið var sent til NIH á 42 dögum. Og á innan vid 2 mánudum var klínísk rannsókn sett af stað á vegum NIH,“ segir Almar.

Kona Arnar hans er Brynja Einarsdóttir, dóttir Einars Gíslasonar fyrrverandi íþróttakennara og konu hans Halldóru Jóhannsdóttur. Brynja (sem einnig er Gaflari) og Örn eiga þrjú börn, þau Karitas, Halldór og Bjarka.
Sterkar hafnfirskar rætur

Almar segir Örn og Brynju eiga íbúð við Suðurvang og Örn komi oft og dvelji þar þegar hann er á leið yfir til Evrópu vegna vinnu og í stuttum fríum. „Hann hefur alla tíð verið séní þótt hann hafi ekki flíkað því. Hann kláraði stúdentinn á þremur árum frá Flensborg, kláraði BS í efnafræð í Háskóla Íslands og flutti svo til Kalíforníu 1989 og var það í háskóla í 5 ár en hefur verið með fasta búsetu á austurströnd USA síðan. En hann er með sterkar rætur hér, það vantar ekki!“