Í húsnæði fyrrum verðbúða við Flensborgarhöfn fer fram verulega skapandi starf hönnuða og listafólks. Meðal þeirra eru fyrirtækin Sign og Svart. Sign hefur verið með starfsemi þar í mörg ár, en Svart er nýkomið í sömu lengju. Eigendur fyrirtækjanna eiga að baki 10 ára farsælt samstarf og því alsæl með að vera loksins á sama stað og segja umhverfið afar heillandi. Hafnfirðingur kíkti í heimsókn og hitti Kötlu Guðmundsdóttur og Sigurð Inga Bjarnason frá Sign og Ólöfu Erlu Einarsdóttur og Silla Geirdal hjá Svart.  

Ólöf og Silli í skrifstofurýminu í Fornubúðum. Þau eru alsæl með að vera komin þangað og finnst umhverfið afar heillandi.

Á þessum tíma árs er mikið að gera hjá Sign við að undirbúa og sérsmíða skartgripina sem fyrir löngu hafa slegið í gegn hjá landsmönnum. „Við erum með einnig með nýjar vörur og framleiðum mikið af sérsmíðuðum gullskartgripum með demöntum og eðalsteinum. Og við leggjum ávallt mikið upp úr góðri þjónustu,“ segir Ingi og bætir við að Katla design sé orðin stór þáttur af nýju hönnuninni. „Það halda margir að við séum bara með silfur, en við smíðum líka mikið úr gulli. Vinnum mikið saman sem heild og mótum hugmyndir saman,“ segir Katla. 
 

Síðasta kvöldmáltíðin, þekktasta auglýsing Sign, úr smiðju Ólafar Erlu, frá árinu 2012. Þekktir Íslendingar og vinir Sign hafa gjarnan setið fyrir á myndum fyrir auglýsingar.
Hljómsveitin Dimma. Silli er lengst til vinstri. Mynd frá Ólöfu.

Svart og Dimma

Ólöf hefur lengi verið þekktust fyrir verk ljósmyndir og myndvinnslu sína sem Ólöf Erla design. Eftir að hafa sagt upp störfum hjá NOVA árið 2017 stofnaði hún Svart og strax var mikið að gera hjá henni og Silli, unnustinn hennar, bættist í hópinn. Þau hafa verið par í tæp þrjú ár. „Svart er hönnunar- og ljósmyndastúdíó og skrifstofuaðstaða. Ólöf Erla design er starfsmaður Svart og Silli er líka með hljóðfæraleigu. Hann er í hljómsveitinni Dimmu, sem einmitt var að gefa út glænýtt lag sem heitir Þögn,“ segir Ólöf stolt. 

Úr vinnurýminu hjá Sign, þar sem mikið aksjón er í gangi um þetta leyti árs.

Pör og vinir

Stóru auglýsingar frá Sign vekja ávallt mikla athygli og þær koma úr smiðju Ólafar. Hún gerði fyrstu myndina fyrir 10 árum og í bígerð eru nýjar. „Það er svo gott að vera loksins komin á sama stað hér. Það var mjög fyndin tilviljun. Ég var að leita að hentugu húsnæði fyrir eina myndatöku og skoðaði þetta og hingað erum við komin með fyrirtækið,“ segir Ólöf. Ingi og Katla bæta við að þau skilji ekki af hverju þeim hafði ekki dottið það í hug fyrr. „Þetta hverfi nær að sameina það að vera mjög lifandi og samt með svo mikla ró. Maður horfir á bátana eins og ruggandi barnavagna þegar það er bræla,“ segir Ingi. Bæði pörin eru sammála um og taka fram að lokum að það séu forréttindi að vinna náið með elskunni sinni og þau eru líka fjögur miklir vinir. 

Myndir: Ólöf Erla.

Mikin nákvæmni og fagmennska. Frá vinnustofu Sign.
Úr Still Life hönnunarlínunni frá Katla design.
Þessi fallegu hringir eru úr sömu línu.
Eitt af verkum Ólafar Erlu og Svart; auglýsingaplakat fyrir jólatónleika Siggu Beinteins.
Ólöf Erla hefur tekið myndir af Páli Óskari og hannað plaköt og auglýsingar fyrir hann í mörg ár.
Andrea Gylfadóttir fyrir Halloween Horror Show tónleikana
Eitt af gríðarlega fallegum og einkennandi verkum Ólafar.
Eitt af sköpunarverkum Ólafar Erlu sem er ekki unnið út frá ljósmyndun.
Hér má sjá hvernig mynd af Sögu Garðarsdóttur leikkonu er fyrir og eftir fullvinnslu.

Þessi umfjöllun er kynning.