Í sumum nágrannalanda Íslands upplifa 13% starfandi einstaklinga kulnun og þar er hún algengust í kennarastétt. Í fræðsluefni á vefsíðu VIRK lýsir Linda Bára Lýðsdóttir, sálfræðingur og sviðsstóri, kulnun m.a. sem tilfinningalegri örmögnun, óeðlilegri og hamlandi þreytu, litlu úthaldi, orku og frumkvæði, tilfinningalegri flatneskju, neikvæðu viðhorfi, dvínandi persónulegum árangri, neikvæðu mati og erfiðleika við að takast á við vandamál. Við hittum Hauk Haraldsson,  klínískan sálfræðing í Sálfræðihúsinu við Bæjarhraun 8, og fræddumst um kulnun út frá hans sjónarhóli í starfi.

Haukur segir dæmigerð einkenni kulnunar verða til þegar einstaklingur sé í starfi eða verkefni þar hann upplifi viðvarandi streitu og sé farinn að upplifa þreytu og örmögnun.  Við Íslendingar er upp til hópa ákaflega metnaðarfull og duglegt fólk sem leggur mikið á sig til að ná marmiðum sínum. „Við gleymum oft hvað við sem lífverur þurfum að gera til að geta unnið krefjandi verkefni og störf. Við þurfum slökun og hvíld, annars tæmast einfaldlega batteríin og þá grípur líkaminn einfaldlega inn í og stoppar okkur af, til að mynda með því að við einfaldlega veikjumst.“

Við gleymum oft hvað við sem lífverur þurfum að gera til að geta unnið krefjandi verkefni og störf. /mynd: treasurytoday.com

Þegar fólk leitar til Hauks vegna streitueinkenna byrjar hann á að kanna daglega rútínu þess. „Þá kemur oftar en ekki í ljós að að viðkomandi fær ekki nægan svefn. Slíkt hefur það áhrif á athygli, kvíði eykst og depurð. Sjálfstraust minnkar og samskipti verða oft erfiðari. Það hefur áhrif að starfsgetu ásamt því sem geta okkar til að sinna heimili og börnum skerðist sem jú veldur aukinni streitu og við eru kominn í vítahring. Að sama skapi er mikilvægt að hafa í huga að góð líkamleg heilsa vinnur gegn áhrifum streitu og öfug. Því er afar mikilvæg að eiga tíma fyrir hreyfingu sem er náttúruleg leið líkamanns til að losa streitu. Til þess að ná tökum á þessum breytum þarf oft að endurskipuleggja og forgangsraða upp á nýtt.“

Núvitund er mikilvægt mótefnið við streitueinkennum. Mynd: bia.ca

Nútivitund mikilvægt mótefni

Þegar fólk fer í veikindaleyfi segir Haukur að oft sé erfitt að snúa til baka í sömu aðstæðurnar þar sem það muni í upphafi upplifa streitu og kvíða á ný. „Fólk þarf í raun aðlögun. Við hjálpum með hugrænni atferlismeðferð til að fólk læri inn á neikvæðar hugsanir um sjálft sig, getu sína og umhverfið ásamt því sem við hjálpum því við að bregðast við kvíðanum. Við metum með fólki hvenær það er tilbúið á ný að takast á við aðstæðurnar,“ segir Haukur. Núvitund sé mikilvægt mótefnið við streitueinkennum; heilög þögn. „Líkaminn er hannaður til átaka en ekki átaka án nægjanlegrar hvíldar. Hann þarf að hvílast inni á milli. Sama gildir um streitu. Heilinn endurnýjar sig í svefni og þarf reglulega hugarhlé yfir daginn. Það er því afar mikilvægt að ná tökum á líkamlegum einkennum og hugsunum okkar. Það er auðveldlega hægt að bjarga lífsgæðum með endurskipulagningu og taka þessa þætti inn í.“

Að lokum segir Haukur að fólk sem leiti til hans séu gjarnan komnir í aðstöðu þar sem þeir hafi ekki stjórn á streitu og það fari að hafa áhrif á svefn og öll hlutverk. „Þá fer það að mikla fyrir sér og stunda sjálfsásakanir. Ég vil ná fólki áður en það brotlendir. Þá er það búið að tapa svo miklu og verður óvinnufært. Þá tekur langan tíma að ná sama dampi enda hættir fólk ekki að vera duglegt, samviskusamt og metnaðarfult. Það þarf hinsvegar að læra að nota það rétt.“

Mynd af Hauki: Olga Björt.