Á fundi fræðsluráðs Hafnarfjarðar í gær var til umræðu framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskólum vegna vandamála sem upp komu við töku þeirra nú í vikunni. Samræmd próf hafa verið lög fyrir með rafrænum hætti frá því árið 2016 og er þetta í annað skiptið sem tölvukerfið stenst ekki álagið og fjöldi barna náði ekki að klára prófið. Til stendur að leggja prófin aftur fyrir þau grunnskólabörn sem ekki náðu að klára og leggur fræðsluráð til að það verði ekki gert í ár. Hafnfirðingur heyrði í Kristínu Thoroddsen, formanni fræðsluráðs og Birgi Erni Guðjónssyni, áheyrnarfulltrúa.

Í bókun fræðsluráðs segir: „Á heimasíðu umboðsmanns barna stendur að haft hafi verið eftir forstjóra Menntamálastofnunar að stuðst sé við algerlega óviðunandi prófakerfi og að Menntamálastofnun hafi ítrekað bent ráðuneytinu á að ef leggja eigi próf fyrir með þessum hætti, þá þurfi betra prófakerfi. Það er ekkert sem bendir til þess að slíkt verði komið fyrir 26. mars.“ Fræðsluráð tekur undir orð umboðsmanns barna og leggur því til að samræmd próf verði ekki lögð fyrir grunnskólanemendur þetta árið. Fræðsluráð leggur einnig áherslu á að samræmd próf sem lögð eru fyrir í grunnskólum séu skoðuð í heild sinni og framtíð þeirra endurmetin.

Kristín Thoroddsen formaður fræðsluráðs segir að það sé alfarið val og vald menntamálaráðherra að taka ákvörðun um að standa með börnunum og leggja ekki prófið fyrir aftur í ár. Samræmd próf hafi verið umdeild í mörg ár og nú þegar ljóst er að kerfið sem á að halda utan um prófin sé ekki að standast álagið þá sé mikilvægt að þau verði ekki endurtekin í ár, enda sé varla hægt að tala um samræmt próf þegar hluti grunnskólabarna á landinu er nú þegar búinn að taka prófið. „Kennarar og nemendur hafa lýst upplifun sinni á prófdeginum í vikunni og ljóst að börnin, mörg hver, upplifðu vanlíðan og kvíða í kjölfarið“. Kristín leggur áherslu á að samræmd próf verði í heild sinni endurskoðuð og jafnvel aflögð í þeirri mynd sem þau eru núna. „Ég veit í raun ekki hvað er verið að kanna annað en álag hjá börnum og vona innilega að þessu verði hætt, en til þess þarf kjark og þor og vona ég svo sannarlega að menntamálaráðherra hafi það í þessu máli.“ Hún bendir einnig á að hægt sé að meta getu barna með allt öðrum hætti og með manneskjulegri aðferð.

Nemendur megi ekki við meira raski í skólastarfi

Birgir Örn Guðjónsson, fulltrúi Bæjarlistans í fræðsluráði segir að Í ljósi þessarar stöðu sem upp er komin varðandi vandamál og frestun samræmdra könnunarprófa níunda bekkjar, ofan í það álag sem skapast hefur vegna covid19 faraldursins, sé það eina rétta í stöðunni að taka þá ákvörðun sem er væntanleg til að vera börnunum fyrir bestu. „Þeirra velferð og líðan skiptir meira máli en samræmd könnunarpróf. Hafnarfjarðarbær ætti því, með hagsmuni nemendanna að leiðarljósi, að taka þá ákvörðun að hætta við að láta skóla bæjarins leggja þessi samræmdu próf fyrir nemendur níunda bekkjar í ár. Þó það brjóti í bága við 39. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 þá eiga börnin alltaf að njóta vafans. Þessi atburðarrás sem skapast hefur er þeim ekki til góðs. Ég get ekki betur séð en að það sé algjörlega ótækt fyrir Menntamálastofnun að halda í þau plön að einungis fresta prófunum og valda með því nemendum auknum kvíða og raska enn frekar því skólastarfi sem nú þegar hefur fengið næga röskun. Með því væri verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og hagsmunir barnanna væru ekki hafðir að leiðarljósi. Þannig á skólakerfið ekki að virka.“

Foreldraráð grunnskólabarna bókaði eftirfarandi á fundi ráðsins þar sem þau harma framkvæmdina: „Foreldraráð grunnskólabarna harmar framkvæmd samræmdra könnunarprófa og telur ljóst að hún bitni helst á börnunum okkar. Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin leggur foreldraráð grunnskólabarna til að samræmd könnunarpróf verði valkvæð nemendum og þeim sé þá í sjálfsvald sett hvort þeir þreyti prófin. Lengi hefur gagnsemi þeirra verið dregin í efa en mögulega hugnast nemendum að kanna stöðu sína og því ber að gefa þeim sem það kjósa færi á að taka prófin. Að auki er mikilvægt að ganga úr skugga um að breytt staða þar sem skólar hafa 2 vikur til að ljúka prófum, raski ekki enn frekar skipulögðu skóladagatali. Næg hefur röskunin á skólastarfi verið undanfarna mánuði.“

Kristín segir að nú sé tækifæri til að gera breytingar og vonar innilega að hlustað sé á þau rök sem komið hafa fram í umræðunni nú í kjölfar þessa vandamáls. Börn eru að fást við áskoranir alla daga og  nú sem aldrei fyrr, samræmdu prófin eru í það minnsta ekki að auðvelda þeim lífið. „Við verðum að standa með börnunum en ekki með kerfinu.“ segir Kristín hún lokum.

Menntamálaráðuneyti stendur fyrir samræmdu námsmati í grunnskólum og leggur grunnskólum í því skyni til samræmd könnunarpróf og annast framkvæmd samræmds námsmats. Samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði skulu lögð fyrir alla nemendur í 4. og 7. bekk grunnskóla. Nemendur á unglingastigi, þ.e. í 8.–10. bekk, skulu þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, stærðfræði og ensku. Önnur próf skal halda samkvæmt ákvörðun ráðherra. Skólastjóra er heimilt, skv. lögum, ef gildar ástæður mæla með því og samþykki foreldra liggur fyrir, að veita nemendum undanþágu frá því að þreyta könnunarpróf í einstökum greinum.