Hafnfirðingur hefur orðið var við vangaveltur og umræðu á íbúasíðum um fjárhagsleg áhrif COVID-19 á Hafnarfjarðarbæ, eins og á önnur sveitarfélög, en eins og staðan er nú má búast við 5-6 milljarða króna gati sem þarf að brúa árin 2020-2021. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri segir í svari við fyrirspurn Hafnfirðings að þegar sé farið að gæta tekjusamdráttar í rekstrinum og viðbragðsaðgerðir séu hafnar.
Rósa segir að umtalsverður tekjusamdráttur verði einkum vegna lægri útsvarstekna sem skýrist af auknu atvinnuleysi, minni tekjum íbúanna, lægri framlaga úr jöfnunarsjóði og að ýmis gjöld hafi verið felld niður, til dæmis í leik- og grunnskólum. Þá hafi frestun gjalddaga einnig áhrif á sjóðstreymi bæjarfélagsins. „Þótt rekstur bæjarins hafi styrkst mjög undanfarin ár í kjölfar hagræðingaaðgerða og aukins aðhalds og aga, er skiljanlega ekki til sjóður til að mæta svona höggi sem faraldurinn veldur. Við höfum síðastliðin ár lagt á það áherslu að framkvæma nær einungis fyrir eigið fé. Þannig hefur skuldahlutfallið lækkað jafnt og þétt. Það leiddi meðal annars til þess að bærinn komst undan fjárhagslegu eftirliti ráðuneytisins. Það er mikilvægt að vera í þeirri stöðu nú þegar þessi ósköp ganga yfir.“
Tekjufall og meiri kostnaður
Auk tekjufallsins þurfi sveitarfélög að búa sig undir talsvert meiri kostnað í kjölfar faraldursins, einkum í fjárhagsaðstoð og vegna ýmissa viðspyrnuaðgerða. „Þessa dagana erum við að ganga út frá 5-6 milljarða króna gati sem þarf að brúa árin 2020-2021 vegna þessa. Áhrifin kunna að vara lengur en vonandi gengur þetta tiltölulega hratt yfir. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á dögunum aðgerðaáætlun til að bregðast við efnahagslegum áhrifum faraldursins á íbúa, félög og fyrirtæki, auk sveitarfélagsins sjálfs,“ segir Rósa. Markmið aðgerðanna sé að tryggja rekstur bæjarfélagsins og koma til móts við atvinnulíf og íbúa sem þurfi að standa af sér afleiðingar faraldursins á afkomu sína. „Aðgerðirnar miða einnig að því að lágmarka þá niðursveiflu sem við blasir og standa vörð um þjónustu bæjarfélagsins. Þar er í raun allt undir. Má nefna að óskað var eftir tillögum um aukið aðhald í rekstrinum, eignir sem eru okkur ekki nauðsynlegar og hægt væri að selja og að kannaðir yrðu möguleikar á lánsfjármagni. Þetta er allt í vinnslu og skoðun.“
Uppbygging, viðspyrna og nýsköpun
Einnig verði lögð áhersla á að hraða skipulagsvinnu á framtíðaruppbyggingarsvæðum sem hafi þegar skilað árangri og síðast en ekki síst er verið að undirbúa viðspyrnu í menningar- og listalífi bæjarins og að nemar og frumkvöðlar geti sótt um spennandi nýsköpunarverkefni og skapandi störf sem brátt verða auglýst. Spurð um hvaða áhrif ástandið muni hafa á útsvarsgreiðendur í náinni framtíð segir Rósa að aðal markmiðið sé að verja þjónustuna við íbúana, tryggja almenna velferð þeirra og alla starfsemi sveitarfélagsins. „En til að halda því þjónustu- og framkvæmdastigi sem við erum með þurfum við að leita allra leiða til að milda þetta mikla fjárhagslega högg sem við verðum fyrir. Forystufólk sveitarfélaganna hefur einnig kallað eftir beinum framlögum frá ríkinu til að unnt sé að láta þetta allt ganga upp líkt og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta er mikil áskorun og stórt verkefni en ég er vongóð um að sama tíma á ári verðum við búin að rétta úr kútnum og með samheldni, samstöðu og jákvæðu hugarfari muni okkar góða samfélag í Hafnarfirði blómstra sem aldrei fyrr.“
Mynd/OBÞ