Í dag stendur til að samþykkja sölu á hlutafé Hafnfirðinga í HS Veitum í bæjarráði Hafnarfjarðar. Kaupendur eru Heiðar Guðjónsson og félagar í HSV eignarhaldsfélagi. Í fréttatilkynningu frá Samtökunum Íbúalýðræði segir að þau harmi þessi áform meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.
Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, talsmaður samtakanna, sendi fjölmiðlum tilkynninguna rétt í þessu og þar segir að samtökin hvetji bæjarfulltrúa til að hlusta á raddir þeirra 1593 Hafnfirðinga sem kröfðust íbúakosninga um málið í undirskriftasöfnun sem fram fór síðastliðið sumar.
„Við krefjumst þess að bæjarstjórn láti framkvæma íbúakosningu um þetta umdeilda mál og leiða þannig vilja bæjarbúa í ljós. Til þess eru ríkar ástæður:
Í fyrsta lagi átti engin umræða sér stað um eignarhlut Hafnfirðinga í HS Veitum eða öðrum fyrirtækjum fyrir kosningar. Einkavæðing opinberra orkuinnviða var ekki á stefnuskrá neins flokks. Enginn fulltrúi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar var kosinn til að framfylgja þeirri stefnu.
Í öðru lagi fengu þeir flokkar sem mynda meirihlutann í bæjarstjórn Hafnarfjarðar færri atkvæði í síðustu kosningum en flokkarnir í minnihlutanum. Þessi staðreynd hlýtur að setja þá kröfu á meirihlutann að hann sýni auðmýkt og samstarfsvilja en keyri ekki umdeild mál í gegn í krafti eins manns meirihluta í bæjarstjórn.
Í þriðja lagi er um gríðarlega umdeilt mál að ræða sem snertir bæði framtíðartekjur bæjarins og fyrirkomulag eignarhalds á orkuinnviðum. Slíkt krefst mun meiri umræðu og samráðs við bæjarbúa en raun ber vitni í þessu máli.“
Samtökin Íbúalýðræði eru að sögn Óskars að skoða hvort efna skuli til nýrrar undirskriftasöfnunar vegna kröfu um íbúakosningu um málið.