Eins og fram hefur komið víða í fjölmiðlum undanfarið þá ætlar Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH) að bjóða upp á rafíþróttir (e. eSports) innan félagsins og undir hatti knattspyrnudeildar a.m.k. til að byrja með. Hallsteinn Arnarson hjá FH segir að félagið hafi lengi skoðað að byrja með rafíþróttir í félaginu.

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á rafíþróttum hjá börnum og unglingum í Hafnarfirði og nágrannasveitarfélögum. Í mörgum tilvikum er um að ræða einstaklinga sem hafa ekki áhuga á hefðbundnum íþróttum eða hafa hætt í fótbolta, handbolta eða frjálsum en vilja samt tilheyra FH fjölskyldunni.“ Hann segir að félagið vilji m.a. ná til þessara efnilegu barna og unglinga og veita þeim tækifæri að spila tölvuleiki með öðrum hjá FH svo að þau geti sinnt sameiginlegu áhugamáli sínu og ræktað hæfileika sína í faglegu og skemmtilegu umhverfi. “Sömuleiðis eru margir mjög góðir tölvuleikjaspilarar sem nú þegar æfa íþróttir í félaginu okkar og eru góðar fyrirmyndir,“ segir Hallsteinn.

Hallsteinn stillti sér upp á viðeigandi hátt í viðeigandi umhverfi.

Hallsteinn segir að margir af bestu hefðbundnu íþróttamönnunum eru líka góðir í tölvuleikjum og lög verði áhersla á að til að ná góðum árangri í rafíþróttum, líkt og í öðrum íþróttum. „Það þarf að vera í góðu líkamlegu ástandi, leggja hart að sér við æfingar, passa mataræðið, fá nægan svefn o.s.frv. Við viljum þannig byggja brú milli hefðbundinna íþrótta og rafíþrótta,“ segir Hallsteinn.

Stórafmæli í haust

FH á stórafmæli í haust en þá verður félagið 90 ára. Hallsteinn segir að það sé mikilvægt fyrir félög að vera opin fyrir nýjungum og að vera tilbúin að aðlagast breyttum tímum og svara kalli samfélagsins. “Við sendum okkar fyrsta rafíþróttalið til leiks í undankeppni Lenovo Deildarinnar í tölvuleiknum Counter-Strike: Global Offensive, sem fór fram um helgina 12.-14. apríl. Liðið okkar náði góðum árangri og var mjög nálægt því að komast í fjögurra liða aðalkeppnina. Meðalaldur leikmanna liðsins var um 26 ár og flestir þeirra höfðu einhver tengsl við FH og vildu ólmir keppa fyrir hönd félagsins,“ segir Hallsteinn. Í liðinu voru m.a. leikmenn sem keppa í efstu deild hefðbundinnar íþróttagreinar hérlendis. FH var eina íþróttafélagið með lið í undankeppninni sem keppti undir merki félagsins. „Með því að senda lið í tölvuleikjakeppni steig félagið stórt skref inn í framtíðina og fetar í fótspor annarra þekktra íþróttafélaga í löndunum í kringum okkur,“ segir Hallsteinn.

Frá kynningarfundinum um rafíþróttir sem haldinn var í Kaplakrika fyrir skömmu.

Keppnislið í yngri og eldri deildum

FH sé elsta starfandi íþróttafélag í Hafnarfirði og setji metnað í að vera í fremstu röð í íþrótta- og uppeldisstarfi. „Félagið leggur mikið upp úr öflugu barna- og unglingastarfi og í byrjun ætlum við að einbeita okkur að rafíþróttastarfi fyrir börn og unglinga á aldursbilinu 11-16 ára. Við munum þó auðvitað skoða að bjóða yngri spilurum líka upp á rafíþróttir sé áhugi fyrir hendi hjá þeim,“ segir Hallsteinn. FH stefni líka alltaf að því að ná framúrskarandi árangri í þeim íþróttagreinum sem stundaðar eru í félaginu og því verði félagið einnig með góð keppnislið yngri og eldri spilara í ákveðnum tölvuleikjum. „Við erum stórhuga í þessu og viljum vera leiðandi og gera vel því mörg innlend íþróttafélög horfa til starfsins hjá FH. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa lýst því yfir að þau vilji aðstoða íþróttafélögin í bænum með rafíþróttastarf innan félaganna og við í FH væntum þess að eiga gott samstarf við Hafnarfjarðarbæ í þeim efnum. Við erum strax farin að huga að mögulegum keppnum við rafíþróttadeildir erlenda íþróttafélaga, sem hafa mikinn áhuga á að fá að keppa við rafíþróttalið okkar. Kannski munum við einn daginn fylla Krikann af tölvuleikjaaðdáendum sem vilja fylgjast með hetjum Fimleikafélagsins keppa við rafíþróttalið þekktra félagsliða á Ítalíu, í Bretlandi, á Spáni eða á Norðurlöndunum í FIFA eða öðrum leikjum. Það eru spennandi tímar framundan í rafíþróttunum hjá okkur FH,“ segir Hallsteinn að lokum.

Fjömenni var á fundinum og mikill áhugi.

Myndir: Olga Björt og Bergdís Norðdahl