Fljótlega á nýju ári verður kjörinn nýr sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju og tekur við því embætti af séra Þórhildi Ólafs prófasti, sem varð 70 ára nú í nóvembermánuði. Við hittum sr. Þórhildi fyrir og litum með henni yfir farinn veg.

„Ég var lengi vel eina konan í guðfræðináminu og stundum var dyrum á stofu 5 í aðalbyggingu Háskólans, þar sem guðfræðideildin var, lokað á mig, þegar strákanir voru komnir inn. Það var bara af gömlum vana. Mér var samt vel tekið og mér leið vel í deildinni og eitt árið var ég formaður Félags guðfræðinema. Á þessum tíma var námið sex ár og skriflegu lokaprófin stóðu yfir í sex tíma í hátíðarsalnum og þá þurfti að taka með sér nesti,“ segir Þórhildur og brosir við tilhugsunina. Þótt Þórhildur hafi lokið námi 1978 var hún ekki vígð til prests fyrr en áratug síðar til Hafnarfjarðarkirkju. „Ég vildi ekki vígjast of fljótt vegna þess að ég vildi ekki að áherslan yrði á það að ég væri kona. Ég byrjaði að vinna fyrir kirkjuna fljótlega eftir að ég flutti til Hafnarfjarðar 1977, m.a. í sunnudagaskóla og fermingarfræðslu. Eiginmaður minn, séra Gunnþór Ingason, var sóknarprestur kirkjunnar og er hann fór í námsleyfi 1988 leysti ég  hann af og varð svo safnaðarprestur kirkjunnar.“ Þau Gunnþór kynntust í guðfræðináminu og eiga þrjá syni. „Við höfum búið að sameiginlegum gildum og lífsskilningi.“

Þórhildur við altarið í Hafnarfjarðarkirkju. Mynd/Eva Ágústa

Samfélag, samstarf og uppbygging

Eftir aldamót varð Þórhildur að hverfa frá störfum við Hafnarfjarðarkirkju og leysti þá presta af í Kjalarnessprófastsdæmi og Reykjavíkurprófastsdæmum þar til að hún var kölluð aftur til starfa í Hafnarfjarðarkirkju í ársleyfi sr. Þórhalls Heimissonar sóknarprests. Hún var svo skipuð prestur sömu kirkju. Sem prófastur Kjalarnessprófastsdæmis frá 2015 lagði Þórhildur áherslu á að efla tengsl og traust á milli presta, djákna og organista. Hún vildi láta ákveðin gildi móta samskipti þeirra og stefnu í prófastsdæminu; gott samfélag, traust samstarf og stefnumarkandi uppbyggingu. Haldnir voru mánaðarlegir fundir með þeim og fyrirlesarar fengnir til að fjalla um hagnýt mál, trú og samfélag. Þórhildur sá líka til þess að prestar sæktu námskeið sem gagnast gætu þeim í starfi. Heimsóknir til umsjónar með helgihaldi og safnaðarstarfi í  prófastsdæminu voru einnig embættiskyldur prófasts. Spurð segir Þórhildur að mikilvægast sé fyrir presta að hafa djúpstæða trúarsannfæringu og ríka samkennd við sálgæslu. Þeir þurfi að búa yfir hugsjónum og eldmóði, hafa skýra framtíðarsýn og geta virkjað fólk til samstarfs.

Safnaðarstarf jókst með tilkomu safnaðarheimilis

Þórhildur segir að verkefnin hafi oft verið krefjandi í prests- og prófastsstarfinu, í starfi sóknarpresta þurfi lagni og framsýni og gott samstarf við sóknarnefndir og samstarfsfólk. „Við byggðum upp safnaðarstarf í safnaðarathvörfum í Dvergi og sýslumannshúsinu gamla á meðan safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju var í byggingu. „Safnaðarstarfið jókst svo mjög með tilkomu safnaðarheimilisins, sem fékk nafnið Strandberg, er valið var úr nafnatillögum fermingarbarna vorsins 1995. Sóknarnefndarmenn studdu það vel og tóku þátt í því. Kirkjusóknin var líka góð og vaxandi. Áætlanir voru gerðar og helgihald og safnaðarstarf skipulagt fram í tímann. Mjög dró úr starfinu eftir efnahagshrun. Það var í lágmarki er ég kom aftur að kirkjunni 2012, en hefur farið vaxandi. Vonandi verður gott framhald á því.“

Helgihald í útvarpi, sjónvarpi og á heimasíðum kirkna

Spurð að því hvað sé efst í huga hennar þegar hún hefur hætt störfum í þjónustu Þjóðkirkjunnar  segir Þórhildur: „Þegar ég lít yfir farinn veg er margt að þakka. Ég er þakklát öllu því góða fólki, sem ég hef kynnst á umliðnum árum og sýnt hefur mér velvild, þakklát fyrir samstarfsfólk og samferðarmenn hér í Hafnarfirði, prófastsdæminu og víðar. Ég bið fyrir þeim sem áfram vinna á akrinum í Hafnarfjarðarsókn og Kjalarnessprófastsdæmi og leggja kirkjunni lið. Kirkja Krists er fólkið sem tekur saman höndum í hans nafni til til gagns og gleði í mannlífi og samfélagi og miklu varðar að gegna því hlutverki.“ Vegna áhrifa heimsfaraldursins skæða verður ekki unnt að sækja kirkju á aðventu og komandi jólum og áramótum. „Boðun Guðs Orðs og helgihald verður þó bæði í útvarpi og sjónvarpi og á heimasíðum kirkna. En hver sem kjörin eru fær fagnaðarerindið um hjálpræði Guðs í Jesú Kristi skinið í hjörtu séu þau opin fyrir því. Þá gefst leiðarljós, huggun og styrkur til að lifa lífinu í trú, von og vitund um himneskan tilgang þess.  Guð gefi gleðileg jól og farsælt nýtt ár 2021 í Jesú nafni,“ segir Þórhildur að endingu. 

Myndir/Eva Ágústa