Þegar skoðaðar eru nýjar spár virðist aftakaveðrið ætla að verða fyrr á ferðinni og skellur á sunnanlands af fullum þunga í nótt. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Vegagerðin hafa lýst yfir óvissustigi og Veðurstofan hefur gefið út rauða viðvörun fyrir SV- og Suðurland.

Vegagerðin ráðgerir víðtækar lokanir strax kl. 1 í nótt og hefur birt lista yfir þá vegi sem eru á óvissustigi vegna veðursins sem er á leiðinni. Endanleg ákvörðun um lokun og síðan opnun aftur er tekin í hverju tilviki fyrir sig. Varhugavert verður að vera á ferðinni á meðan óveðrið gengur yfir.

Af síðu Veðurstofunnar.

Eins og alltaf þegar svona veðri er spáð skiptir afar miklu að fólk hugi að lausum hlutum, bindi þá niður eða komi þeim í skjól.

Skjáskot af síðu Vegagerðarinnar.
Hægt er að sjá færð á vegum á Suðvesturlandinu jafn óðum hér.

Forsíðumyndin frá Facebook síðu Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings er af Harmonie-líkani Veðurstofunnar og sýnir vind í 100 m hæð yfir jörðu kl. 7 í fyrrmálið. Guli liturinn markar 32 m/s og sá bleiki 40 m/s.