Það viðrar vel til vetraríþrótta þessa dagana og nú hefur Golfklúbburinn Keilir í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ lagt tvær gönguskíðabrautir á Hvaleyrarvelli.

Önnur brautin er um 1 km og byrjar neðan við skálann og fer um Hvaleyrina. Hin brautin er um 2 km og byrjar við bílastæðin hjá Hraunkoti og fer yfir þann völl sem í daglegu tali heitir Hraunið. Brautirnar eru því mislangar og miserfiðar og ættu því að henta flestum. Upphaf brautanna er merkt með europallettum til bráðabirgða sem ættu að sjást auðveldlega og kort væntanlegt. Til stendur að Golfklúbburinn Keilir viðhaldi þeim brautum sem lagðar verða á golfvöllinn á meðan snjór og frost eru áfram í kortunum og vallarstarfsmenn þiggja allar góðar ábendingar.