Þegar við förum á tónleika og hlustum t.d. á sterka rödd einhvers sem syngur, þá eru raddböndin okkar virk og titra með. Við verðum þátttakendur. Þegar okkur gefst svo einnig tækifæri á að syngja með þá er það mikil útrás og gott fyrir okkur. Tónlist hefur því mikið afl og hægt að nýta hana til svo margs góðs. Inga Björk Ingadóttir músíkmeðferðarfræðingur hefur undanfarin 10 ár starfað hér á landi við músíkmeðferð og tónlistarkennslu í Hljómu, fallega svarta timburhúsinu við Austurgötu 38, með mjög góðu aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Þar vinnur hún með börnum með ýmiss konar áskoranir, börnum og fullorðnum með hreyfihamlanir, fullorðnum með Alzheimer og heilabilun og tónlistarkennslu yngsta fólksins. Ásamt þessu sinnir Inga Björk sértækri tónlistarkennslu í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Tónlistarskóla Kópavogs.
Um þessar mundir eru margir nemendur Ingu Bjarkar einhverf börn og í viðtalinu hér í hlekknum fyrir ofan lýsir hún á svo fallegan hátt að fyrir henni er það eins og að hún sé geimfari sem fær að heimsækja margar ólíkar plánetur og taka þátt í því sem gerist þar. Tónlistarskólar bjóði upp á að nemendur velji hljóðfæri og læri á þau en Inga Björk segir að börn og unglingar með áskoranir séu oft mjög músíkölsk og það taki tíma að velja sína leið. Óhefðbundin nálgun skiptir því miklu máli.





Músíkmeðferð getur einnig farið fram í heimahúsi eða öðrum dvalarstað skjólstæðings. Allt eftir þörfum hvers og eins. Slík meðferð er skipulögð notkun tóna, hljóða og hreyfinga sem beitt er til að auka vellíðan eða endurnýja, viðhalda og þróa andlega og líkamlega heilsu og/eða getu. Músíkmeðferðarfræðingar nota sérstök tón- og hljóðáreiti, eða eiginleika og eðlisþætti tóna og hljóða, og tengsl sem myndast í tónlistarreynslunni, í þeim tilgangi að ná settum markmiðum í meðferð, kennslu og endurhæfingu fólks sem á við líkamleg, andleg og félagsleg vandamál eða fötlun að stríða.





