Það lærist margt af því að vera bæjarfulltrúi. Sumt kemur á óvart, annað er fyrirsjáanlegt en á heildina litið er það allt nokkuð áhugavert. Eitt af því sem mér þykir hvað vænst um að hafa kynnst er hinn svokallaði Litlihópur, sem þrátt fyrir nafnið er síður en svo lítill. Þegar betur er að gáð eigum við nefnilega öll, bæjarbúar, hlutverki að gegna í verkefnum hans.

Litlihópur er samstarfs- og upplýsingavettvangur barnaverndar, framhaldsskóla, heilsugæslu, Íþrótta- og tómstundanefndar, lögreglu, forvarnafulltrúa og skóla. Viðfangsefni hópsins er málefni barna, unglinga og ungmenna í Hafnarfirði. 

En hvernig tala skólarnir, lögreglan, barnavernd og heilsugæslan saman – og um hvað? Þau gera það eflaust með ýmsum hætti, en í samhengi Litlahóps snýst málið oftast um að láta hvert annað vita þegar vísbendingar um vanlíðan barna og ungmenna koma upp. Það sem frá einu sjónarhorni lítur út eins og skemmdaverk eða óæskileg hópamyndun má nefnilega túlka allt öðruvísi ef horft er gegnum önnur gleraugu. 

Stóra myndin

Að kynnast vinnulagi Litlahóps opnar augu manns fyrir heildarmyndinni. Ummerki um að stórir hópar safnist saman á afviknum stöðum, sem til dæmis má sjá á yfirfullum eða brotnum ruslatunnum á Víðistaðatúni eða við Hvaleyrarvatn, eru ekki endilega til marks um óþekkt eða illt innræti. Þau geta þvert á móti verið merki um vanlíðan unglinga sem eru að flýja erfiðar aðstæður heima fyrir. Lausnin liggur því ekki endilega í aukinni vöktun eða fleiri ruslatunnum, heldur kannski frekar í bættum stuðningi heim. 

Það að eldri börn og unglingar leiti í leiktæki og á svæði sem eru í raun hönnuð fyrir yngri börn og jafnvel til notkunar undir eftirliti fullorðinna ætti að hringja svipuðum bjöllum. Skyldi þennan aldurshóp vanta samastað?

Þegar sá hluti Litlahóps sem vaktar almenningsrými og hugar að skemmdarverkum og þessháttar verður var við óæskilega hegðun, virkjar hann aðra arma hópsins til samvinnu. Skólarnir í viðkomandi hverfum geta þá athugað hvort börn og ungmenni í viðkvæmri félagslegri stöðu þurfi hjálp og barnavernd getur þá jafnvel orðið að liði. 

Hvernig líður krökkunum okkar í dag?

Ég fylgist með flestum ef ekki öllum íbúa- og hverfasíðum Hafnfirðinga á samfélagsmiðlum, sem fulltrúi íbúa í bæjarstjórn. Þar er oft að finna mikilvægar ábendingar og upplýsingar og þessa dagana leiða þær huga minn því miður í síauknum mæli inn á verksvið Litlahóps.

Undanfarna daga hefur smitum af völdum Covid-19 fjölgað hratt í þriðja sinn og við erum eðli málsins samkvæmt orðin frekar þreytt á ástandinu. Enginn veit hvað bylgjurnar verða margar eða hvenær þeim lýkur. Markmið baráttunnar við veiruna hefur frá fyrsta degi verið að vernda okkar viðkvæmustu hópa. Þar er vel að merkja átt við heilsufarlega viðkvæmasta fólkið. 

Hliðarverkun af þeirri vernd er því miður að við útsetjum aðra og ekki síður viðkvæma hópa fyrir auknum vanda. Þar á meðal eru börn og ungmenni sem líður ekki vel heima hjá sér. Okkur er uppálagt að draga úr samskiptum út fyrir okkar þrengsta hóp, sem dregur vissulega úr smithættu á veirunni en eykur um leið alvarleika félagslegs vanda, hvar sem hann er að finna.

Verum Litlihópur

Mig langar svo að biðla til okkar allra að hafa augun opin fyrir orsökinni á bak við það sem við sjáum á ferðum okkar um bæinn. Ef afleiðingar hópamyndunar og óæskilegrar hegðunar eru að verða sýnilegri, ættu ástæðurnar að baki því að verða það líka. 

Það er nefnilega mjög mikilvægt að við vöktum nærumhverfið okkar og hjálpum hvert öðru að halda því í góðu horfi. Hluti af því er að leiða hugann að því hvers vegna hlutirnir gerast og hvað við getum gert til að verða að liði. 

Ef við setjum öll upp gleraugu Litlahóps og spyrjum okkur hverjir það eru í okkar nánasta umhverfi sem gætu þurft aukinn stuðning, getum við í sameiningu áorkað miklu, samfélaginu öllu til heilla.Guðlaug Svala Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi Bæjarlistans