Lögreglumaðurinn Birgir Örn Guðjónsson flutti til Hafnarfjarðar árið 2006 og hefur verið áberandi í samfélagsumræðu, líka á íbúasíðum Hafnarfjarðarbæjar, þar sem hann bendir íbúum á staðreyndir þegar umræða er komin út fyrir raunveruleikann. Birgir hefur starfað mikið með barnavernd og er hluti af teymi sem sinnir tilraunaverkefninu Þorpið, sem sett var á fót fyrir ári síðan en sannar sig verulega núna með að svarar þörfum um samvirkni kerfa og þverfaglega samvinnu í kjölfar Covid19.

Verkefninu Þorpinu var komið á fót í mars 2019 og það hlaut m.a. styrk frá Lýðheilsusjóði. Sökum niðurskurðarkröfu á lögregluna á höfuðborgarsvæðinu mun þessi vinna ekki halda áfram að öllu óbreyttu. Birgir skrifaði færslu um vonbrigði sín í febrúar og sagði þá m.a. „Sigríður Björk, lögreglustjóri, kom þessu verkefni á laggirnar. Hún fór á sínum tíma af stað með nýja nálgun í heimilisofbeldismálum, sem er eitt risa forvarnarverkefni, og þetta var í raun næsta skref í þeirri vinnu. Að vernda þá sérstaklega sem eru í viðkvæmustu stöðunni og þar eru börn og ungmenni stærsti hópurinn. Það er skylda okkar sem samfélag að gera allt sem við getum í þeirri vinnu.“

Birgir, ásamt fulltrúum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Hafnarfjarðarbæjar, þegar samstarfs- og þróunarverkefninu (tilraunaverkefni til eins árs) Þorpinu var komið á fót í mars 2019. Mynd/Hafnarfjarðarbær

Skólar og félagsmiðstöðvar opnuðu á ný 4. maí en Birgir segir að stórt verkefni bíði alls samfélagsins næstu ár við að greina áhrif ástandsins á líðan barna og unglinga og að hver og einn geti haft þar mikilvæg áhrif.

„Í þessu starfi greini ég í raun ástandið þegar kemur að ungmennum og sveitarfélög eru að stilla saman strengi í samvinnu við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfar samkomubanns hefur verið miklu erfiðara að sjá heildarmyndina um stöðu og líðan barna og ungmenna því varnarveggurinn hefur ekki verið til staðar, s.s. skólinn, félagsmiðstöðvarnar og íþróttafélögin sem hafa vanalega haldið utan um börnin og tilkynnt ef eitthvað er að,“ segir Birgir. Lögreglan sjái bara brotabrot af raunveruleikanum, þ.e.a.s. þegar hlutir fara úr böndunum og er kölluð til, m.a. vegna hópamyndunar eða heimilisofbeldi. „Við komum þessum upplýsingum áleiðis t.d. til starfsfólks félagsmiðstöðva sem er langoftast í miklum tengslum við börnin í hverju hverfi fyrir sig. Samstarfið er því mjög mikilvægt. Ef það koma upp mál og hringt er í 112 þá sé ég það og set mig í samband við þetta fólk. Þá fæ ég gjarnan viðbrögð um að þau kannist við tilfelli eða vandamál tengd börnum eða fjölskyldum þeirra og þá er hægt að stilla betur saman strengi í forvarnamálum.“ 

Hvað er heimilisofbeldi?
Heimilisofbeldi er ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hálfu einhvers sem er honum nákominn, tengdur eða skyldur. Ofbeldið getur verið líkamlegt, andlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt eða jafnvel stafrænt. Þar sem gerandi og þolandi tengjast á þolandi oft erfiðara um vik með að slíta tengslum við gerandann og áhrif ofbeldisins verða djúpstæðari. Heimilisofbeldi er ekki bundið við heimili geranda eða þolanda og getur átt sér stað hvar sem er.

(Af vefsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu)

Hægt er sjá nánari skilgreiningu á ofbeldi af vefsíðu Kvennaathvarfsins með því að smella hér.

8 tilkynningar á einum sólarhring

Fram hefur komið í fréttum að heimilisofbeldi hefur aukist um 10% í samkomubanni vegna þess að gerendur og þolendur eru meira heima fyrir. Birgir segir að vakin hafi verið sérstök athygli á þessu og fólk verið beðið um að láta vita ef grunur liggur á að ofbeldi eða vanræksla sé í gangi. „Bara síðasta sólarhring bárust lögreglunni átta tilkynningar frá nágrönnum sem höfðu heyrt öskur eða læti. Það er mikið og í samkomubanni hafa allir dagar einhvern veginn verið eins. Það er meiri hætta á að neysla á vímugjöfum aukist, löglegum og ólöglegum, gerandinn er stöðugt á heimilinu og þá minnka líkurnar á að þolandinn geti kallað á hjálp og verður að treysta á umhverfið.“ 

Mynband sem dreift hefur verið á vegum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Líka mikilvægt að tala til gerenda

Birgir hvetur fólk hiklaust til að ná til þolenda ofbeldis sem eiga erfitt að með að leita sér hjálpar en einnig sé mikilvægt að tala til gerenda. „Þar er ábyrgðin. Þau sem einhvern tímann hafa misst stjórn á sér eða finnst þau líkleg til þess undir áhrifum eiga að taka ábyrgð og leita sér hjálpar. Ofbeldi er líka andlegt og hefur áhrif á börnin þótt það beinist ekki gegn þeim. Sá sem beitir þannig valdi eykur líkur á að barnið sýni áhættuhegðun. Vill einstaklingurinn búa til þannig aðstæður? Það er ekki í boði að loka augunum fyrr svona því vandamálið hverfur ekki.  Svona mál snúast aldrei um einhverja tvo einstaklinga. Með því að rjúfa hegðun þá er hugsanlega verið að rjúfa keðju sem gæti bjargað mörgum í einu. Samfélagslegt mikilvægi þess að grípa inn í er mjög dýrmætt.“ 

Sameiginleg áskorun að byggja samfélagið upp á ný

Birgir segir að vegna ástandsins sé velferðarkerfið blindara á stöðuna en ella. „Þetta er í raun algjörlega nýtt fyrir okkur og við erum að þreifa okkur áfram og vona að við komumst þokkalega undan þessu ástandi þegar allt fer í gang aftur. Við vonum að samfélagið verði ekki of laskað þegar varnarveggurinn tekur við aftur. Ef ekki, þá verður áskorun að byggja það upp á ný og það gæti tekið langan tíma. Áhrifin geta verið mjög sálræn; líðan fullorðins fólks vegna tekjuskerðingar, atvinnumissis eða annars hefur bein áhrif á líðan barna, sem einnig finna fyrir vanlíðan af því að hafa ekki getað mætti í tómstundir. Þetta er risa-samfélagsmál að takast á við og það verða einhvern veginn allir að vera reiðubúnir að taka höndum saman og finna til ábyrgðar. Það þarf að reisa við velferðarkerfið eins og efnahagskerfið eftir covid19 og við erum í þeirri stöðu að geta haft áhrif á það. Við erum öll almannavarnir í þessu líka, í bland við mikilvæga og mátulega bjartsýni. Við erum öll forvarnir,“ segir Birgir að endingu.  

Mynd af Birgi/OBÞ