Þessi frægu orð, oft kennd við Mahatma Gandhi, fóru um huga minn þegar ég tók þá ákvörðun að bjóða mig fram í prófkjöri Pírata í Suðvesturkjördæmi vegna komandi Alþingiskosninga. Orð sem ég hef haft að leiðarljósi undanfarna áratugi í öllu mínu starfi á alþjóðavettvangi í baráttu við hamfarir, farsóttir og afleiðingar stríðs og sárafátæktar.
Nú þegar Ísland stendur frammi fyrir fjölþættum og veigamiklum áskorunum er mikilvægt að við sem trúum á gagnsæi, ábyrgð, friðhelgi einkalífsins, jöfn borgararéttindi, beint lýðræði og jafnrétti leggjum okkar hönd á plóginn við að tryggja bætta framtíð okkar lands. Þessar áskoranir felast ekki síst í að tryggja efnhagslega enduruppbyggingu í kjölfar heimsfaraldurs og kreppu, nýjum veruleika tengdum stafrænni umbyltingu og áhrifum hennar á störf, auknum áhrifum loftslagsbreytinga á lífsviðurværi og efnahag og samþjöppun í eignarhaldi og fjármunum með tilheyrandi spillingu.
Eftir að hafa unnið á alþjóðavettvangi um áratugaskeið við að fyrirbyggja og bregðast við náttúruhamförum og aðstoða fólk við að losna úr viðjum sárafátæktar þá tel ég mig hafa byggt upp reynslu sem mun nýtast vel á vettvangi Alþingis við að takast á við þann ólgusjó sem framundan er. Sér í lagi mun sá hæfileiki minn að fá ólíka aðila til þess að vinna vel saman að stórum og erfiðum verkefnum verða mikilvægur á komandi kjörtímabili.
Ég er hamingjusamlega giftur, fimm barna faðir og afi úr Hafnarfirðinum sem hefur búið í sjö löndum og ferðast til yfir hundruð landa. Ég er með B.Sc. gráðu í tölvunar- og efnafræði frá Kaupmannahafnarháskóla, diplóma í þróunarfræðum frá HÍ og er einni óskrifaðri meistararitgerð frá M.A. gráðu í þróunarfræðum.
Námsferillinn endurspeglar vel það hvernig tækni og það að hjálpa öðrum hefur ávallt átt hug minn. Ég byrjaði að vinna í tæknigeiranum þegar ég var 14 ára, fyrstu árin sem forritari. Ég gerðist sjálfboðaliði í Rauða krossinum þegar ég var tvítugur og gekk í björgunarsveit fimm árum síðar. Það var síðan fyrir einum og hálfum áratug sem mér tókst að samtvinna þessi tvö áhugasvið mín þegar ég fékk starf sem fólst í því að vera ráðgjafi fyrir ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir um hvernig best mætti nýta tölvutæknina við að búa sig undir og bregðast við náttúruhamförum. Það starf leiddi síðan til þess að ég stjórnaði öllu því sem snéri að tækni og fjarskiptaviðbrögðum hjá regnhlífarsamtökum 60 stærstu hjálparsamtaka í heimi. Auk þess var ég stjórnandi Íslensku Alþjóðabjörgunarsveitarinnar á Haíti árið 2010 og meðlimur í UNDAC á vegum Sameinuðu þjóðanna.
Ég vil nýta reynslu mína af alþjóðavettvangi til þess að hjálpa Íslandi að takast á við þær áskoranir sem framundan eru. Það skiptir máli að á þingi sé fólk sem hefur djúpan skilning á þessum áskorunum og hvernig megi takast á við þær, en talar ekki bara í frösum eða bendir á vandamál án þess að hafa tillögur að lausnum. Fólk sem trúir á aukið jafnrétti og jöfnuð. Fólk sem hlustar á vilja almennings, en ekki bara lítinn hóp sérhagsmunaaðila.
Sem barnabarn kommúnista og sjálfstæðismanns kemur það eflaust einhverjum á óvart að ég bjóði mig fram í prófkjöri hjá Pírötum, en mitt svar er einfalt. Píratar er sá flokkur á Alþingi sem er tilbúinn að horfa fram á við, flokkur sem er tilbúinn að laga það sem bæta þarf í okkar stjórnkerfi, flokkur sem trúir á gögn og gagnsæi en ekki bara það sem sérhagsmunahópar telja þeim trú um, flokkur sem er tilbúinn að skipta um skoðun og horfa björtum augum til framtíðar. Ég vil leggja mitt af mörkum og sækist eftir stuðningi ykkar til að skipa 2. sætið í komandi prófkjöri.
Gísli Rafn Ólafsson