Það mætti segja að skrúðgarðyrkjumeistarinn Björn Bögeskov Hilmarsson beri ættarnafn með rentu, því það er danska útgáfan af orðinu er beykiskógur. Björn, eða Böddi eins og hann er kallaður, sem hefur starfað hjá Hafnarfjarðarbæ í tæp 30 ár, er forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Hafnarfjarðar við Norðurhellu. Þar starfa 19 manns að jafnaði og verkefnalistinn er langur og árstíðabundinn. Við kíktum í heimsókn. 

Böddi á verstæðinu við jólaskraut sesm fer fjótlega upp í bænum. Mynd/OBÞ

Björn kom til starfa á samningi hjá bænum árið 1990 eftir að hafa lært skrúðugarðyrku og tók við af Kristján Ingi Gunnarssyni garðyrkjustjóra bæjarins fjórum árum síðar. „Þá hét þetta áhaldahús og hér störfuðu um 50 manns. Þjónustan var upphaflega við Flatahraun en var svo færð til Hringhellu árið 2001 og svo árið 2008 til Norðurhellu. Hér eru í dag á einum stað skipulags- og byggingasvið, veiturnar, umhverfis- og rekstrardeild og fasteignafélag sem sér um allar eignir bæjarins. Þjónustan við íbúa er bættari fyrir vikið.“

Hér að ofan gefur að líta fundargerð eftir einn morgunfund.

Byrja daginn á morgunfundum

Starfsfólk Þjónustumiðstöðvarinnar annast margvísleg verkefni sem lúta að þjónustu við íbúa og stofnanir bæjarins, s.s. viðhalds- og rekstrarverkefnum, nýframkvæmdum, eftirliti á ýmsu er tilheyrir gatnakerfinu, göngustígum, opnum svæðum, opnum leikvöllum og upplandi bæjarins. „Verkefnin eru flest árstíðabundin. Frá því að við fluttum í Helluhverfið byrjum við alltaf daginn á 15-20 mínútna morgunfundi með verkstjórunum, um verkefni dagsins, þar sem við skoðum hvað náðist að klára daginn áður og leggjum upp daginn. Um þessar mundir er rýnt í veðurspá og mögulegar hálkuvarnir, söltun og söndun. Jólaskreytingarnar eru einnig á leið upp núna, aðallega í miðbænum en einnig jólaljós á grenitré víðar í bænum. Svo erum við að gera jólahúsin tilbúin fyrir Jólaþorpið,“ segir Björn.  

Séð yfir hluta af verkstæðinu, þar sem m.a. er verið að flíkka upp á jólahúsin. Mynd/OBÞ
Það veitir sko ekki af að eiga nóg af svona verkfærum. Mynd/OBÞ

Tveir sjá um alla ruslakassa og biðskýli

Í Hafnarfirði eru hátt í 70 leik- og sparkvellir sem þarf að við halda og aðstoða leik- og grunnskóla sem og stofnanir bæjarins í mismunandi verkefnum s.s. að flytja húsögn og búnað á milli húsa o.s.frv. „Við sjáum líka um gatnaviðhald, s.s. brotna kantsteina, holufyllingar og frágang eftir framkvæmdir veitna. Tveir menn sjá um alla ruslakassa í bænum; að losa þá og hreinsa sem og biðskýli. Svo erum við með 2-3 í garðyrkjudeildinni, sem er mjög víðfemt starf. Á sumrin koma líka hátt í 1000 ungmenni í Vinnuskólann. Ef vetur verða harðir, þá fer meira og minna allur mannskapurinn og verktakar að auki í að halda stofnæðum, götum og göngustígum færum. Óskastaðan er 22-23 stöðugildi sem fastir starfsmenn í þjónustumiðstöð, en mjög gott að geta leitað til  sérhæfðra verktaka og fagfólks við lausn á hinum ýmsu verkefnum sem þarf að framkvæma. Það er aldrei lognmolla hér, góður andi, verkefnin klárast aldrei koma bara ný og ég hlakka til hvers dags,“ segir Björn og brosir. 

Myndir:OBÞ

Þessi umfjöllun er samstarf.