Laugardaginn 2. nóvember kl. 17 verður opnuð í Hafnarborg yfirlitsýningin Guðjón Samúelsson húsameistari, í tilefni þess að öld er liðin frá því að Guðjón lauk háskólaprófi í byggingarlist árið 1919 og var í framhaldinu skipaður húsameistari ríkisins árið 1920. Á sýningunni verður lögð áhersla á sýn Guðjóns sjálfs á eigin verk, stílþróun í byggingarlist hans og líklega áhrifavalda. Þar verða til sýnis teikningar, ljósmyndir og líkön af byggingum Guðjóns, ásamt ýmsum tillögum sem ekki urðu að veruleika. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun flytja ávarp við opnun sýningarinnar.

Segja má að nafn húsameistarans Guðjóns Samúelssonar hafi á sér goðsagnakenndan blæ. Hann er sá íslenski arkitekt sem flestir kannast við. Helstu byggingar hans eru fyrir löngu orðnar þjóðkunn tákn fyrir staði og stofnanir í íslensku samfélagi. Saga mannsins að baki verkunum er hins vegar fáum kunn. Guðjón var maður sem öðru fremur lifði fyrir starf sitt og sú listgrein sem hann nam og lauk háskólaprófi í fyrstur Íslendinga átti hug hans allan. Sem húsameistari ríkisins í þrjátíu ár brann hann af metnaði fyrir hönd sinnar lítils metnu þjóðar og vildi gera veg hennar sem mestan með verkum sínum.

Guðjón var frumkvöðull á mörgum sviðum og átti veigamikinn þátt í nútímavæðingu íslensks samfélags. Opinber staða hans gaf honum einstakt tækifæri til áhrifa á byggingar- og skipulagsmál heillar þjóðar sem fáum arkitektum hefur hlotnast fyrr né síðar. Verk hans voru umdeild á sinni tíð og hafa fáir listamenn mátt sæta óvægnari gagnrýni. Það kom í hans hlut að gefa bæjum og byggingum hins nýfullvalda lands áþreifanlegt form og listrænt svipmót. Fyrir þjóð sem aldrei eignaðist gotneskar kirkjur eða hallir í klassískum stíl hafa verk Guðjóns sérstaka þýðingu.

Það er við hæfi að halda sýningu á verkum Guðjóns í Hafnarborg, þar sem ein bygginga hans, apótekið við Strandgötu 34 frá árinu 1920, myndar einkennandi hluta af sýningarrými safnsins. Sýningarstjórar eru þau Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, og Pétur H. Ármannsson, arkitekt, sem lengi hefur unnið að rannsóknum á byggingarlist Guðjóns Samúelssonar. Sýningin er unnin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands sem veittu ómetanlegt aðgengi að safnkosti sínum. Sýningin naut einnig styrks frá safnasjóði.