Móðurfélag Isavia flytur höfuðstöðvar sínar af Reykjavíkurflugvelli að Dalshrauni 3 í Hafnarfirði innan skamms, en félagið hefur þegar fengið húsnæðið afhent. Starfsemin verður nú öll á einni hæð en hefur verið í sjö hæða turni á Reykjavíkurflugvelli. Við ræddum við Sveinbjörn Indriðason, forstjóra Isavia, og spurðum hann út í þessi tímamót.

„Við hjá Isavia höfum um nokkurt skeið leitað að húsnæði sem hentar betur undir skrifstofur móðurfélagsins heldur en húsnæðið í Turninum við Reykjavíkurflugvöll. Nýja húsnæðið í Dalshrauni uppfyllir vel okkar þarfir og færir okkur nær því að vera miðja vegu á milli Keflavíkurflugvallar og þeirra sem við þurfum helst að vera í samskiptum við í okkar rekstri,“ segir Sveinbjörn. Starfsemi tveggja dótturfélaga Isavia, þ.e. Isavia ANS, sem annast flugleiðsöguþjónustu, og Isavia Innanlandsflugvalla, sem reka innanlandsflugvelli á grundvelli þjónustusamnings við íslensk stjórnvöld, færist hins vegar ekki frá Reykjavíkurflugvelli.

Heilsa starfsmanna í forgang 

Sveinbjörn segir aðspurður að þrátt fyrir að leitað hafi verið að hentugu húsnæði hafi í raun alltaf verið ljóst hver yrði heppilegasta staðsetningin. Þegar svo áhrifa Covid 19 fór að gæta á Íslandi hafi komið önnur verkefni sem voru í meiri forgangi. „Í haust kom í ljós að það er mygla í Turninum og þá var með hraði tekin ákvörðun um að flýta flutningi höfuðstöðvanna. Þá stóð Dalshraunið til boða. Isavia setur heilsu starfsmanna sinna í forgang og það er aldrei boðlegt að bjóða upp á heilsuspillandi starfsumhverfi.“ 

Ein og hálf hæð þægilegri en sjö

Starfsemin verður á einni og hálfri hæð í nýja húsnæðinu, sem Sveinbjörn segir ólíkt þægilegra en að vera á sjö hæðum í Turninum. Það hafi haft mikið óhagræði í för með sér. „Reyndar gat það verið fínasta hreyfing á annasömum degi að hlaupa á milli hæða, en þetta verður allt annað líf í Dalshrauninu. Staðsetningin gerir það líka að verkum að við styttum ferðatímann mikið milli skrifstofunnar og Keflavíkurflugvallar sem hefur gríðarlegt hagræði í för með sér fyrir fyrirtækið og starfsmennina.“

Aðstaða tilbúin um miðjan desember

Spurður um hvenær búist er við að flytja segir Sveinbjörn að stafsfólk Isavia sé mjög spennt yfir því. „Við vinnum það nú þegar, í undirbúningsvinnunni fyrir flutninginn, að Hafnfirðingar taka vel á móti okkur. Við höfum þegar fengið hæðirnar afhentar og nú er verið að vinna við að gera aðstöðuna tilbúna fyrir okkar starfsfólk. Við áætlum að þeirri vinni ljúki um miðjan desember. Hins vegar er auðvitað ennþá töluverður fjöldi skrifstofufólks í heimavinnu vegna sóttvarnaraðgerða í Covid-19 faraldrinum. Við fylgjumst vel með tilmælum Almannavarna og yfirvalda og fylgjum þeirra tilmælum þannig að það er enn óljóst hvenær við höfum endanlega komið okkur fyrir. Við hlökkum mikið til að hefja störf í Dalshrauninu,“ segir Sveinbjörn.

Mynd af Sveinbirni aðsend Mynd af Dalshrauni/OBÞ