Stærsti leikur ársins í knattspyrnunni fer fram á Laugardalsvelli 14. september en þá mætast karlalið FH og Víkingur í úrslitaleik Mjólkurbikarkeppni KSÍ. Leikurinn hefst kl. 17:00 en FH-ingar ætla að hittast í Kaplakrika klukkan 14:00 og keyra upp stemminguna. Þar verður fólki m.a. boðið upp á klæðast bikarúrslitabolum og rútuferðir verða inn í Laugardal.

FH hefur sex sinnum leikið til úrslita í bikarkeppninni og tvívegis hrósað sigri, árin 2007 og 2010.
Davíð Þór Viðarsson er fyrirliði FH og lék með liðinu í sigurleiknum 2007. Hann segir
bikarúrslitaleikinn vera einstaka upplifun.

„Það er mjög gaman að fá að spila þennan leik og það er alls ekkert sjálfsagður hlutur að ná að taka
þátt í bikarúrslitaleik. Það hafa margir frábærir leikmenn klárað sinn feril án þess að fá tækifæri að
spila svona leik og maður á bara að njóta augnabliksins.“

Svona stemningu vilja FH-ingar fá í stúkunni um helgina. Myndir/J.Long.

FH lék síðast bikarúrslitaleik fyrir tveimur árum en sá leikur tapaðist 1-0 gegn ÍBV. Davíð segir þá
reynslu vissulega súra en jafnframt geta nýst liðinu á laugardaginn.

„Við munum vel eftir tilfinningunni eftir tapið gegn ÍBV fyrir tveimur árum og það var í raun ótrúlegt
hversu andlausir við mættum í þann leik. Það eru ennþá margir leikmenn í liðinu sem tóku þátt í
þessum leik 2017 og við munum nota þessa reynslu til að hvetja okkur til betri verka í þetta skiptið,“
segir Davíð ákveðinn.

Umræðan um FH og Víking hefur verið nokkuð ójöfn í sumar, þar sem FH hefur fengið mikla og
kannski á köflum óréttmæta gagnrýni á meðan Víkingar hafa jafnan fengið mikið hrós. Davíð segir
þetta ekkert nýtt.

„FH hefur einfaldlega komið sér á þann stall í íslenskri knattspyrnu að fólk gerir miklar kröfur til
liðsins og vill sjá okkur spila góðan og árangursríkan fótbolta. Gagnrýnin undanfarin misseri hefur að
mörgu leyti átt rétt á sér en við erum ekkert að láta þessa umræðu pirra okkur. Víkingar eiga gott
fótboltalið sem hefur leikið á köflum mjög vel í sumar en það má ekki horfa fram hjá því að við erum
á góðu skriði núna og förum fullir sjálfstrausts í þennan leik. Eftir að Kári Árnason og Óttar Magnús
Karlsson komu til Víkinga er þeir með mjög heilsteypt lið. Til að vinna þetta lið, verðum við að vera
þéttir og gefa engin færi á okkur. Lykillinn að árangri er sterkur varnarleikur og út frá honum getur þú
svo byggt upp skemmtilegan sóknarleik.“

Fyrirliðinn segir það alls enga klisju að stuðingur úr stúkunni geti hreinlega ráðið úrslitum í slíkum
úrslitaleikjum. „Stuðningur áhorfenda skiptir gríðarlega miklu máli og það er bara hrikalega gaman að spila fótbolta þegar þú hefur mikið af stuðningsfólki til að styðja við bakið á þér. Stemmingin á pöllunum hjálpar okkur leikmönnum klárlega inni á vellinum og ég verð að fá að hrósa okkar stuðningsfólki sem hefur staðið með okkur í gegnum súrt og sætt.“

Er ekki bara kjörið að sleppa því að skilgreina sig sem stuðningsmann FH eða Hauka í einn dag og
mæta á leikinn sem stuðningsmaður Hafnarfjarðar? „Já, að sjálfsögðu! Ég ber engan kala til vina okkar í Haukum og fyrir mitt leyti vil ég einfaldlega að öllum hafnfirskum liðum gangi alltaf vel. Það væri rosa gaman að sjá sem flesta Hafnfirðinga fjölmenna á völlinn og skila enn einum titlinum í fjörðinn,“ segir Davíð brosandi og bætir svo við:

“Ef ég rifja aftur upp leikinn 2017 gegn ÍBV, þá bjuggust eflaust flestir við okkar sigri í þeim leik og
kannski gerðum við það sjálfir líka. Við náðum aldrei að njóta augnabliksins en það er klárlega það
sem menn þurfa að gera í bikarúrslitaleik. Mað aldrinum áttar maður sig betur á því að ekkert endist
að eilífu í boltanum og það er alls ekkert víst að svona tækifæri komi aftur. Mætum á völlinn og
tökum bikarinn heim. Áfram FH,“ segir fyrirliðinn að lokum.

Viðtal: Benedikt Grétarsson.
Forsíðumynd: OBÞ
Aðrar myndir: J.Long.