Mikil uppbygging á sér stað í Skarðshlíð og nýlega var úthlutað lóðum á svokölluðum þróunarreitum í Hamranesi. Þar er gert ráð fyrir fjölbreyttu íbúðarhúsnæði þar sem lóðahafar sjá sjálfir um að gera deiliskipulag fyrir hvern reit. Talsverður áhugi var fyrir verkefninu þar sem verktakar, fjárfestar og arkitektar tóku sig saman og skiluðu inn fjölbreytilegum tillögum. Á undanförnum vikum hefur lóðum undir um 860 íbúðir verið úthlutað á svæðinu. Framkvæmdir í Hamranesi ættu að geta hafist í sumar á þessu fallega svæði við uppland Hafnarfjarðar.  Hafnarfjarðarbær hvetur húsbyggjendur til að setja umhverfið í forgang, með því að fá Svans- eða BREEAM vottun eða sambærilegar vottanir á nýbyggingar sínar og fá í kjölfarið afslátt af lóðarverði.

Framkvæmdir við nýtt knatthús á Ásvöllum mun hefjast í takti við tekjur af sölu lóða á svæðinu. Gert er ráð fyrir um 100 íbúðum og er aðal- og deiluskipulag að klárast. Um er að ræða samvinnuverkefni Hafnarfjarðarbæjar og Knattspyrnufélagsins Hauka, en þörf fyrir byggingu knatthúss á þessu svæði hefur lengi legið fyrir. 

Samgöngur inn og út úr hverfinu verða mun betri með tilkomu Ásvallabrautar og einnig nýs leiðarkerfis Strætó sem verður kynnt bráðlega. Samningur var gerður á dögunum við lægstbjóðanda í útboði Ásvallabrautar sem liggur frá Kaldárselsvegi að Skarðshlíð. Framkvæmdir hefjast von bráðar og er framkvæmdatíminn áætlaður tvö ár. Syðri hluta Bláfjallavegar frá Leiðarenda austur að afleggjara 417-01 hefur verið lokað tímabundið vegna vatnsverndarsjónarmiða. Vegurinn er í eigu ríkisins og var ákveðið að fara í gerð umhverfis- og áhættumats fyrir Bláfjallaveg frá Krýsuvíkurvegi að Bláfjöllum. Matið með tilliti til t.d. mögulegs olíuleka á þessari leið á að liggja fyrir eigi síðar en fyrir árslok 2021. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um framtíð vegarins. Rafvæðing bílaflotans er í stórsókn og verða nýskráningar dísel- og bensínbifreiða óheimilar eftir árið 2030. Ég er vongóð um að vegurinn verði opnaður aftur skíðaunnendum og útivistarfólki til mikillar ánægju. 

Lovísa Traustadóttir

Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í skipulags- og byggingarráði