Hafnfirðingur leitaði viðbragða Inga Tómassonar, formanns skipulags- og byggingaráðs Hafnarfjarðarbæjar, vegna fréttar um Hrauntungu 5 fyrr í dag. Ingi segir í svari til Hafnfirðings að á síðasta kjörtímabili hafi verið byrjað á að vinna að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Hrauntunga 5.

„Mikil og vönduð vinna var lögð í breytinguna og m.a. haldnir tveir fundir með íbúum í hverfinu þar sem komu fram athugasemdir um tillöguna. Brugðist var við athugasemdum með því að færa til byggingarreiti og minnka byggingarmagn. Deiliskipulagið var svo auglýst og samþykkt í bæjarstjórn þann 12. júní 2019 af öllum bæjarfulltrúum án athugasemda.

Fyrirspurn um breytingu á deiliskipulaginu barst skipulags- og byggingarráði þann 24. mars sl. Ráðið tók jákvætt í fyrirspurnina. Þann 5. maí sl. samþykkti ráðið deiliskipulagsbreytinguna og vísaði til bæjarstjórnar til staðfestingar. Verði tillagan samþykkt fer hún í auglýsingar- og kynningarferli. Gera má ráð fyrir andmælum við tillögunni og þá er það að lokum bæjarstjórn sem ákveður hvort tillagan verði samþykkt eða henni hafnað.

Myndin sem Ingi sendi með svarinu.

Breytingartillagan gerir ráð fyrir að íbúðum verði fjölgað úr 5 í 8. Bílastæðum verður fjölgað úr 12 í 18. Byggingarreitir eru óbreyttir á tillögunni miðað við gildandi skipulag og ekki er aukið við byggingarmagn á reitnum.  Nýtingarhlutfall verður áfram að hámarki 0,4.

Í gildandi deiliskipulagi er hámarkshæð húsa 8,0 metrar, tillagan gerir ráð fyrir hámarkshæð 7,10 metrar á báðum þríbýlishúsunum og 6,9 metrar á tvíbýlishúsinu. Leyfileg hæð húsa lækkar því um 90sm. til 110sm. Breyting verður á þakformi og  hliðum húsa eins og sést á mynd með fréttinni.

Í fundargerðum sem hér eru nefndar má kynna sér samþykkt deiliskipulag og tillöguna sem liggur fyrir bæjarstjórn að taka ákvörðun um hvort verði samþykkt í auglýsingar- og umsagnarferli.

Hér er gildandi deiliskipulag og tillaga að breyttu deiliskipulagi sem nú liggur fyrir.

Með góðri kveðju,
Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingaráðs. “