Ingvar Jónsson, markþjálfi og eigandi Profectus, fékk í morgun tölvupóst þar sem hann var beðinn um að flytja 30 mínútna erindi á stærstu mannauðsráðstefnu í heimi og jafnframt taka þar á móti viðurkenningu sem einn af 101 áhrifamestu markþjálfum á heimsvísu.

Í samtali við Hafnfirðing segir Ingvar þessa viðurkenningu ekki breyta miklu hjá honum persónulega, en faglega þyki honum afskaplega vænt um að boðskapur markþjálfunar sé að öðlast meiri og meiri hljómgrunn og þá virðingu sem hún á skilið. „Ég hef verið að vinna markvisst í því síðustu ár að fara inn á erlendan markað með þær lausnir sem ég hef verið að þróa,“ segir Ingvar aðspurður.

2000 sérfræðingar í mannauðsmálum frá 133 löndum

Í tölvupóstinum var Ingvar beðinn um að halda 30 mínútna erindið How to Lead like a Viking á og minnst á að Ingvar muni af sama tilefni taka á móti viðurkenningu sem einn af 101 áhrifamestu markþjálfum í heimi. Yfir 2000 sérfræðingar í mannauðsmálum frá 133 löndum munu sækja þessa ráðstefnu í Taj Lands End, í Mumbai, 15. febrúar næstkomandi.

„Tímasetningin á þessari viðurkenningu er reyndar frábær því að síðar á þessu ári koma út tvær bækur eftir mig á ensku, Discover your Inner Viking og einnig nýja bókin mín Hver ertu og hvað viltu? Allar svona viðurkenningar skipta því máli í öllum markaðsaðgerðum. Það er með okkur höfunda eins og bíla, kvikmyndir og spægipylsur; ef hægt er að hengja einhver verðlaun eða viðurkenningar á okkur þá eykur það traust, trúverðugleika og sölu.“

Hélt fyrst að um væri að ræða ruslpóst

Ingvar fékk fyrst tölvupóst fyrir um mánuði síðan þar sem honum var tilkynnt um þessi verðlaun en hann hélt að þetta væri ruslpóstur og eyddi honum bara. „Svo þegar ég fór að fá fleiri beðnir frá þeim eins og að skrifa einhverjar blaðsíður í bók sem kemur út á ráðstefnunni og er prentuð í 150.000 eintökum, þá fór ég að skoða þetta betur. En ég var enn ekki sannfærður, ekki fyrr en ég var búinn að sjá hvaða fyrirlesarar verða þarna og að þetta er 25. árið sem ráðstefnan er haldin.“

Ingvar á skrifstofu sinni við Strandgötu. Mynd/OBÞ

Ingvar sendi þeim því stutta grein í bókina þar sem hann benti á hvaða innblástur og lærdóm leiðtogar í dag gætu sótt í þau gildi sem víkingar höfðu að leiðarljósi fyrr á öldum. „Í mínum erindum tala ég t.d. mikið um hugrekki. Það er stóra málið í dag, að hafa hugrekki til að vera t.d. einlægur, sýna hver maður er, líta inn á við og horfast í augu við sjálfan sig. Þetta tengist allt framförum og vexti.“

Aðeins 56 ICF vottaðir markþjálfar starfandi á Íslandi

Það gæti komið mörgum á óvart, en einungis 56 ICF vottaðir markþjálfar starfa sem slíkir á Íslandi þótt 10 sinnum fleiri hafi lært markþjálfun. Ingvar segir flesta sem hafi náð sér í vottun noti hana bara í sínum störfum. „Á Indlandi eru heldur ekki nema um 550 vottaðir ICF markþjálfar. Á fyrsta áratug þessarar aldar óx varla nokkur iðnaður eins mikið og markþjálfun í Bandaríkjunum. Þetta skilaði sér miklu síðar til annarra landa. Mín skoðun er að markþjálfun á eftir að ná miklu meiri útbreiðslu og fólk á eftir að átta sig á því hvað aðferðir og hugmyndir í henni eru brjálæðislega heilsteyptar og fallegar. Þetta byggir á svo mikilli virðingu. Grunnur þeirrar vinnur sem ég legg upp með snýr mestmegnis að því að fólk átti sig betur á að það eru ekki margir sem í raun þekkja sjálfa sig; hafa ranga mynd af því hvers þeir eru megnugir og hafa jafnvel lokað á sig. Það eru svo margir sem halda að þeir vita hverjir þeir eru en hafa í raun ekki hugmynd um það fyrr en látið er á það reyna,“ segir Ingvar.

Ber virðingu fyrir fólki þar sem það er hverju sinni

Ingvar tekur sérstaklega að hann hafi aldrei skoðun á hvar og hvað fólk er hverju sinni. „Ég ber fulla virðingu fyrir fólki á þeim stað sem það er. Eina sem ég reyni að koma á framfæri er að ég veit að fólk er að leita leiða og lausna til að ná þeim árangri sem það vill. Það er fólkið sem ég vil hjálpa.“

Ingvar hefur gefið út nokkrar bækur og flestar þeirra fjalla meira og minna um það hvernig hægt er að verða betri manneskja og í kjölfarið betri leiðtogi. Hann gaf út bókina Sigraðu sjálfan þig fyrir tveimur árum og nýjasta bókin, Hver ertu og hvað viltu?, kemur í verslanir í næstu viku. „Þetta er einstæð bók sem hjálpar þér að finna hugrekki til að standa með sjálfri/um þér. Taka stefnuna þangað sem þú vilt fara – hvað sem öðrum kann að finnast um það!“ segir Ingvar.

Popparinn sem snéri við blaðinu 37 ára

Ingvar kannast eflaust margir landsmenn við sem fyrrum söngvara í hljómsveitinni Pöpunum. Hann breytti um lífsviðhorf fyrir 12 árum þegar hann skellti sér í háskólanám, 37 ára, og eftir það fóru gæfuhjól lífsins heldur betur að snúast hjá honum, eins og fram kemur í viðtali sem við tókum við hann fyrir Fjarðarpóstinn fyrir tveimur árum.

Mynd af Ingvari/OBÞ.