Útskrift fyrstu þátttakenda úr verkefninu Fjölþætt heilsuefling 65+ í Hafnarfirði, markaði ákveðin tímamót hjá Janusi heilsueflingu og Hafnarfjarðarbæ. 115 þátttakendur á aldrinum 65-92 ára tveggja ára heilsueflingarferli með formlegri útskrift með frábærum árangri.
- Dagleg hreyfing jókst um 80%
- Styrktarþjálfun jókst um 425%
- Efri mörk blóðþrýstings lækkuðu um 7,4%. Neðri mörk sambærileg
- Gripstyrkur jókst um 10,5% hjá konum og 11,9% hjá körlum
- Styrkur í fótleggjum jókst um 43%
Nú í febrúar eru liðin tvö ár frá því að tilraunaverkefni um heilsueflingu eldri borgara hófst. Um 160 þátttakendur skráðu sig í upphafi árs 2018 og á dögunum luku 115 þátttakendur á aldrinum 65-92 ára tveggja ára heilsueflingarferli með formlegri útskrift með frábærum árangri. Hópurinn getur fljótlega með nýju smáforriti fylgt eftir eigin þjálfun í gegnum æfingaáætlanir, fylgst með árangri sínum og haldið utan um daglega hreyfingu. Smáforritið er hugsað sem eftirfylgni og áframhaldandi hvatning fyrir hópinn.

Reglulegar mælingar hafa verið gerðar á sex mánaða fresti á tímabilinu og hefur árangur verið einstaklega góður. Fyrsta mæling var framkvæmd fyrir þátttöku í verkefninu og sú fimmta og síðasta eftir tveggja ára heilsueflingu. Sérstaklega má nefna að blóðþrýstingur þátttakenda hefur lækkað á tímabilinu, styrkur og hreyfifærni aukist, afkastagetu fleytt fram auk þess sem mat þátttakenda á eigin heilsu og velferð hefur styrkst til muna. Verkefninu hefur fylgt regluleg fræðsluerindi með áherslu á næringu og ýmsa heilsutengda þætti eins og núvitund, lyfjanotkun í tengslum við þjálfun og fræðslu um jafnvægi og æfingar fyrir jafnvægisþjálfun.
Bein áhrif á daglegt líf og mögulega búsetu til lengri tíma litið
Helsti árangur á nokkrum lykilbreytum eru meðal annars þær að dagleg hreyfing hefur aukist um tæplega 80% og þátttakendur nú að ganga um 15 mínútum lengur á degi hverjum. Þá hafa þeir aukið styrktarþjálfun sína um 425%. Þátttakendur hafa mætt að jafnaði 2,1 skipti í styrktarþjálfun á viku en mjög fáir lögðu stund á styrktarþjálfun áður en þeir tóku þátt í verkefninu.
Efri mörk blóðþrýstings hafa farið úr 149 í 138 mmHg sem er lækkun um 7,4%. Það verður að teljast góður árangur. Neðri mörk blóðþrýstings voru sambærileg milli mælinga, fóru úr 82 mmHg niður í 81 mmHg. Gripstyrkur bæði karla og kvenna jókst á tímabilinu, hjá konum um 10,5% og karla um 11,9% sem er mjög áhugavert þar sem styrkur veikist yfirleitt með hækkandi aldri ef þjálfun er ekki til staðar. Styrkur í fótleggjum, að standa upp úr stól, jókst um 43% á tímabilinu.
Huglægt mat þátttakenda óx
Huglægt mat þátttakenda á eigin heilsu óx á tímabilinu um 20,6% sem er mjög áhugaverð niðurstaða m.t.t. hækkandi aldurs þátttakenda. Það er einstaklega áhugavert og má leiða líkum að því, m.t.t. framangreindra niðurstaða, að viðkomandi einstaklingar geti stundað athafnir daglegs lífs lengur, dvalið lengur í sjálfstæðri búsetu og komið í veg fyrir of snemmbæra innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili.
Þessi þróun á bættri heilsu og velferð eldri einstaklinga er til þess fallin að hafa mjög jákvæð áhrif á fjárhag ríkis og sveitarfélaga á komandi árum, verði unnið áfram markvisst að heilsutengdum forvörnum þessa aldurshóps.
Myndir frá Hafnarfjarðarbæ.