Nýtt bakarí var opnað í Fjarðarkaupum um sl. mánaðamót, þegar þessi geysivinsæla, hafnfirska stórverslun hóf samstarf við hið alíslenska bakarí Passion í Álfheimum. Stærsta ástæða fyrir samstarfinu er að þar á bæ er allt bakað frá grunni. Meira að segja súrinn í súrdeiginu er heimaræktaður. Það sem einnig sameinar fyrirtækin tvö er að þau eru bæði fjölskyldufyrirtæki, eigendur alltaf á staðnum til taks og viðskiptavinir númer eitt. Við hittum Ingibjörgu Sveinsdóttur, markaðs- og mannauðsstjóra Fjarðarkaupa og Lilju Guðrúnu Liljarsdóttur, einn þriggja eigenda Passion.



„Við erum alsæl með að vera komin í samstarf við teymi bakara sem mætir um miðja nótt til að töfra fram þessar fjölbreyttu kræsingar,“ segir Ingibjörg og leggur áherslu á að viðskiptavinir geti sannarlega stólað á gæði en einnig gott verð, sem ávallt er meðal aðalsmerkja Fjarðarkaupa. Viðskiptavinir hafi þegar tekið breytingunum vel og séu ánægðir með úrvalið og nýjungarnar. Lilja bætir við að mikil vinna liggi að baki hverri vöru, því ekki sé um fjöldaframleiðslu að ræða. „Það tekur t.a.m. 24 tíma að gera einn skammt af súrdeigsbrauði. Þannig að þið getið rétt ímyndað ykkur ástríðuna, eins og nafn bakarísins okkar gefur til kynna.“

Sjö bakarar og vilja ráða fleiri
Sjö bakarar mæta í vinnuna í Álfheimum 6 í Reykjavík á milli klukkan tvö og þrjú á næturnar og svo er unnið á 8-12 tíma vöktum. „Við erum með Styrmi Má Sigmundsson sem meistara og einnig einn eigenda, svo eru fjórir lærðir bakarar, þar af eigandinn Elías Þór Þórðarson (æskuvinur Styrmis) og tveir nemar. Þetta er mjög krefjandi starf og líkamlega erfitt að standa í fæturna meira og minna allar vaktir, á þessum tíma sólarhrings og lyfta 25 kg pokum af hráefni. Fyrir 17-18 ára stráka, þá tek ég ofan af fyrir þeim,“ segir Lilja, greinilega stolt af sínum hóp og tekur fram að þau séu í leit að tveimur bökurum í viðbót, því næg séu verkefnin. Þau hafi einnig alltaf lagt mikið upp úr því að hafa vörurnar sínar á góðu verði, þrátt fyrir vinnuna að baki.




Gríðarlegt úrval af bakkelsi
Á meðal þess sem boðið verður upp á í FK bakaríi eru súrdeigsbrauð, stórir ástarpungar, pítubrauð sem einnig eru framleidd eru líka fyrir Pítuna, fjölbreytt úrval af vinsælum tækifæriskökum, s.s. hjónabandssælur, pistasíukökur, sjónvarpskökur, auk margra gerða af snúðum og sætabrauði, croissant, pizzastykki, og brauð fyrir öll tækifæri. „Svo er það kirsuberið á toppnum og helsta nýjungin hjá okkur; girnilegar tertur í nokkrum gerðum sem geymdar eru í kæli rétt við afgreiðsluborð bakarísins. Þær er tilvaldar fyrir veislur, kaffiboð eða til að gera vel við sig og njóta. Við viljum gera allt til að auðvelda viðskiptavinum lífið og geta gert öll innkaup á einum stað,“ segir Ingibjörg.








Myndir/OBÞ
Þessi umfjöllun er kynning.