Það þarf ekki að fjölyrða um þau gífurlegu áhrif sem Covid-19 hefur haft á okkar samfélag. Fjölmargir eiga um sárt að binda vegna atvinnumissis, skerðingu á lífsgæðum, einangrunar og einnig hefur sorg lagst yfir mörg heimili vegna dauðsfalla af völdum þessarar skelfilegu veiru.

Í byrjun mars var ljóst að grípa þurfti til aðgerða í okkar samfélagi. T.a.m. var félagsstarfi eldri borgara lokað sem og frístundastarfi fyrir fatlað fólk.

Fjölskylduráð ákvað á síðasta fundi að félagsstarf og stuðningsþjónusta við eldri borgara verði efld. Markmiðið með því er að rjúfa félagslega einangrun, viðhalda færni og auka vellíðan eldri borgara á tímum Covid-19. Lögð er áhersla á að eldri borgarar geti fengið stuðning og sótt félagsstarf í sumar. Félagsstarf sem hefði venjulega verið lokað yfir hásumarið.

Fjölskylduráð ákvað einnig að aukið verði við frístundastarf fatlaðra, barna af erlendum uppruna og barna sem ekki stunda hefðbundið tómstundastarf. Markmiðið er að efla virkni, vellíðan og félagslega færni barna í viðkvæmri stöðu.

Börnin finna vel fyrir þessum erfiðleikum í samfélaginu. Vanlíðan þeirra kemur að einhverju leyti fram í félagslegri einangrun, þunglyndi, skólaforðun og þreytu. Það er því afar mikilvægt að skólastjórnendur og nemendaverndarráð leik- og grunnskóla fái ákveðnar bjargir til að bregðast við þegar börnin mæta í skólann eftir sumarfrí. Það er hætt við því að einhver börn sýni merki vanlíðunnar vegna þessa ástands, einhver heimili geta ekki borgað fyrir börnin sín í íþrótta- og tómstundastarf, einhver heimili verða í vandræðum með leikskólagjöld og annan kostnað er tengist skólagöngu. Mikilvægt er að fjölskyldu- og barnamálasvið og mennta- og lýðheilsusvið vinni saman að því að útbúa verkferla til að taka utan um fjölskyldur í vanda strax í haust. Hafnarfjarðarbær hefur haft leiðandi hlutverk varðandi snemmtæka íhlutun, samvinnu og samþættingu í þjónustu við börn og fjölskyldur síðustu misseri og mun sú mikilvæga þróun halda áfram að auknum þunga í ljósi uppbyggingar eftir Covid-19.

Það er léttara yfir í samfélaginu þessar vikurnar en afar mikilvægt að við stöndum áfram saman og vinnum bug á þessum skelfilega vágesti. Tökumst á við afleiðingarnar með samstöðu og samvinnu að leiðarljósi.

Valdimar Víðisson

Formaður fjölskylduráðs