Í húsnæði gömlu Skattstofunnar við Suðurgötu 14 fer fram ýmis starfsemi sem tengist ungu fólki. Í rýminu á jarðhæðinni Suðurgötu megin er þessa dagana verið að gera klárt nýtt húsnæði ungmennahúss Hafnarfjarðar. 14. febrúar verður kynning á húsnæðinu fyrir bæjarfulltrúa og aðra sem hafa aðstoðað eða komið að uppbyggingu Ungmennahússins á einhvern hátt og þá fer einnig í gang nafnasamkeppni um orð yfir nýja aðsetrið. Við kíktum í heimsókn og tókum tali John Friðrik Bond Grétarsson, tómstunda- og félagsmálafræðing og verkefnastjóra ungmennahússins og Birtu Guðnýju Árnadóttur, nemenda í Flensborg og fulltrúa í ungmennaráði.  

Þau sem muna eftir rými Skattstofunnar kannast við mögulega við sig hér.

Ungmennahúsið er hugsað fyrir aldurinn 16 til 25 ára og Friðrik segir lykilinn í starfseminni vera að krakkarnir og ungmennin móti dagskrána og stýri henni sjálf. „Frumkvæðið á að koma frá þeim og ég einungis rek starfsstöðina og hrindi öllu í framkvæmd. Við verðum með kynningu á starfatorginu í Flensborg seinna í febrúar þar sem við kynnum starfsemina og bjóðum fólki að taka þátt í húsráði, sem er svipað og nemendaráð í grunnskólum, og hafa þannig áhrif á starfsemi ungmennahússins.“ Ungmennahúsið er einungis tímabundið vinnuheiti og Friðrik segir að efnt verði til nafnasamkeppni eins og í gamla daga á bókasafninu. Óskað er eftir nafnatillögum í netfang Friðriks, johnbond@hafnarfjordur.is

Þarna í horninu verður svið.

Ungt fólk er jákvætt og uppbyggjandi

Aðspurður segir Friðrik að hann hafi alla sína starfsævi verið í kringum eitthvað tengt ungmennum og félagslífi. „ Síðan ég var 16 ára var stefnan að læra tómstundafræði og vinna við þetta. Sjálfur fékk ég að taka þátt í starfi félagsmiðstöðva sem unglingur og hópastarfi á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Ég fór að vinna í Hrauninu í Víðistaðaskóla og Verinu í Hvaleyrarskóla og stýrði hópastarfi á vegum félagsmiðstöðvanna og félagsþjónustunnar. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt og algjört draumastarf að fá að byggja þetta upp frá grunni á nýjum stað.“ Hvað er heillandi við þetta? „Ungmennin og hvað þau eru frábær. Það er gaman að vera í kringum fólk sem er ekki fast í sama farinu og jákvætt og uppbyggjandi. Það er líka gefandi og gott fyrir mína sál að umgangast þau og fjölbreytnina. Við erum stundum með ungmenni sem eiga erfitt og leiðbeinum þeim við að finna sig og blómstra. Markmið mitt er alltaf að fá ungmennin til að gera eins mikið og þau geta sjálf og virkja þau til framkvæmda.“

Þetta vinnur sig ekki sjálft. Kjartan Kjartansson, smiður og Guðmundur Bjarni Hannesson rafvirki.

Þórður Steinþórsson málari.

Ungmennaráð með áheyrnarfulltrúa

Þarna grípur Birta inn í og segir: „John er einfaldlega rétti maðurinn í þetta starf. Hann hefur viljað vita hvað okkur finnst og er mikill leiðtogi. Það vantaði svona aðstöðu fyrir krakka á þessum aldri því það vantar svona starf í menntaskólana.“ Spurð segir Birta að mest gefandi sé hversu gaman er að vinna að einhverju fyrir bæinn. „Ég er búin að vera í ungmennaráðinu í þrjú ár og við höfum ýtt á stjórnvöld því okkur hefur fundist þurfa aðstöðu fyrir þennan aldurshóp. Ég sem framhaldsskólanemi fannst það vanta og það dreif mig áfram.“ Einnig kemur ungmennaráðið tillögum til tómstundanefndar bæjarins sem fer með það fyrir bæjarstjórn. „Þau eru líka heppin að hafa áheyrnarfulltrúa til að sjá til þess að hlustað verði á okkur. Við höldum súpufundi og komum með tillögur frá okkur og þar er hlusta.“ John tekur undir þetta og bætir við: „Mér hefur verið boðið á nokkra fundi og þetta er mjög vel gert hjá bænum.“

Myndir/OBÞ