Í dag var skrifuðu Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri, og Samúel Guðmundsson, formaður Hauka, undir samkomulag á milli Hafnarfjarðarbæjar og Knattspyrnufélagsins Hauka um byggingu knatthúss á Ásvöllum.

Samkomulagið var undirritsð í Ólafssal, ásamt Geir Bjarnasyni, íþrótta- og tómstundarfulltrúa bæjarins, og Magnúsi Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Hauka. Nokkrir iðkendur í knattspyrnudeildinni sem voru á æfingum á Ásvöllum voru viðstaddir og stilltu sér upp í myndatöku.

Í samkomulaginu segir m.a. að hefja skuli framkvæmdir við fyrsta áfanga verkefnisins samhliða því að lóðum á Ásvöllum verði úthlutað. Þá segir að aðilar eru sammála um að hefja þegar undirbúning að hönnun og öðrum nauðsynlegum verkþáttum er varðar byggingu knatthúss. Skal jafnframt horft til þess möguleika að byggingarframkvæmdum verði hraðað ef hagstæðir samningar nást þar um.

Ljósmyndir: Hulda Margrét