Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sl. miðvikudag var samþykkt að á Ásvöllum muni rísa knatthúss og að sala lóða á svæðinu muni fara í þá uppbygginu. Endalegt hús og fjármögnun verða rædd í framkvæmdanefnd sem er hluti af samkomulaginu. Í yfirlýsingu sem stjórn Hestamannafélagsins Sörla sendi fjölmiðlum í gær, eru bæjaryfirvöld sögð svíkja forgangsröðun ÍBH í byggingu íþróttamannvirkja í bænum. Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs, segir umræðuna ekki byggða á réttum upplýsingum.
 

„Ég hef orðið verulega hugsi eftir yfirlýsingar forsvarsmanna Sörla undanfarið og þau þungu orð sem þarf hafa verið látin falla. Það er mikilvægt í þessu öllu að umræðan sé byggð á réttum upplýsingum, staðreyndum og ég kalla eftir yfirveguðum umræðum um öll þessi mál,“ segir Ágúst Bjarni í samtali við Hafnfirðing.

Væntanleg reiðhöll Hestamannafélagsins Sörla. Mynd/Sörli

Í greinargerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020 segir:
„Áfram verður unnið að undirbúningi á uppbyggingu íþróttamannvirkja á næsta ári þótt ekki sé gert ráð fyrir fjármagni til framkvæmda fyrr en á árinu 2021. Starfshópar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar nýs knatthúss og reiðhallar hafa skilað skýrslu með þarfagreiningu og kostnaðarmati. Greinargerð með fjárhagsáætlun 2020 – 2023 knatthúss og reiðhallar hafa skilað skýrslu með þarfagreiningu og kostnaðarmati. Fyrir liggur að fara þarf í breytingar á deiliskipulagi á athafnasvæði Sörla og ljúka aðalskipulagsbreytingu vegna breyttra nota á hluta af athafnasvæði Hauka og gera nýtt deiliskipulag fyrir svæðið í kjölfarið. Unnið er samkvæmt samkomulagi milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og Hauka um að hluti lóðar Ásvalla fari undir íbúðir og að lóðatekjurnar hafi áhrif á upphaf og framvindu framkvæmda við byggingu knatthúss. Tekjur af sölu hesthúsalóða munu einnig hafa áhrif á framkvæmdahraða við reiðhöll. Á næsta ári verður unnið að frekari undirbúningi og kostnaðargreiningu í samvinnu við félögin.“

Samkomulagið við Hauka var tilbúið fyrr

Ágúst Bjarni segir að við þetta verði staðið og verkefnin séu einfaldlega bæði að fara í undirbúning á árinu. „Samkomulagið við Hauka var einfaldlega tilbúið fyrr, en gagnvart Sörla á eftir að leysa úr nokkrum atriðum svo  hægt sé að leggja fram samkomulag. Við erum bara á þeirri vegferð. Ég vænti þess að slíkt samkomulag komi til bæjarráðs mjög fljótlega og ég trúi því ekki fyrr en á reynir að forsvarsmenn Sörla ætli ekki að vinna með bæjarfélaginu að góðri og skynsamlegri uppbyggingu á íþróttasvæði félagsins,“ segir Ágúst Bjarni að lokum.

Haukasvæðið eins og það kemur til með að líta út. Mynd/Haukar