Hafnfirðingur ársins 2021 er leikarinn Tryggvi Rafnsson, samkvæmt niðurstöðum rafrænnar kosningar sem fram fór á milli jóla og nýárs. Í einlægu viðtali segir Tryggvi frá þunglyndi sem hefur hrjáð hann meira og minna af frá unglingsaldri. Hann varð fyrir óvæntum missi fyrir tæpum 10 árum sem litaði einnig tilveru hans. Hamingjan óx svo smám saman með dyggum stuðningi unnustu hans Þóru og þegar hann varð sjálfur fjölskyldumaður. Grímur hans voru þó áfram margar og bakvið þær þjáning sem á verstu stundum bitnaði á hans nánustu, en engir aðrir tóku eftir. Á tímum covid og í kjölfar óvæntrar erfiðrar reynslu sem gerðist nokkrum dögum eftir að ljósgeislinn og dóttirin fæddist, hrundi loks heimur Tryggva og hann hringdi algjörlega bugaður í föður sinn sem þurft af hörku og festu að standa með syni sínum þegar geðheilbrigðiskerfið næstum því brást.

Hér má sjá niðurstöður að morgni nýársdags, en miðað er við stöðuna þá. Tryggvi hlaut 456 atkvæði í fyrsta sæti. Ína Lóa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Sorgarmiðstöðvar, var í öðru sæti og sjálfur Sigurður Brynjólfsson í því þriðja.


Óskað var eftir tilnefningum á vefsíðu Hafnfirðings og á hinni fjölmennu síðu Hafnarfjörður og Hafnfirðingar á fyrri hluta desembermánaðar. Öll tilnefnd eru fyrirmyndar-Hafnfirðingar og við þökkum öllum sem bæði tilnefndu og greiddu atkvæði. Hafnfirðingur ársins hefur undanfarin ár verið afhjúpaður um þetta leyti janúarmánaðar á forsíðu prentmiðilsins Hafnfirðingur, en í þetta sinn er það á vefsíðunni og með hlaðvarpsviðtalinu hér fyrir ofan:
Fjölskyldan; f.v. Ívan Ingi, Tryggvi, Ísak Darri, Þóra og Tara Nótt.
Tryggvi ásamt Þóru sinni á Tenerife fyrir skömmu. Hann segir hana mikinn nagla og einstakan lífsförunaut sem hann skilur ekki enn í dag hvernig hún hefur náð að þola hann í gegnum allt saman.
Með pabba Rabba á 9. áratugnum.
Ívan Ingi, Tryggvi og faðir Tryggva, Rafn Svanur Oddsson, sem reyndist hárrétti maðurinn sem Tryggvi hringdi í þegar hann var kominn á sinn versta stað og gat ekki meira sl. vor. Rafn starfaði lengst af sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og vissi því hvað þurfti að gera.
Ásamt mömmu sinni, Ástu Eyjólfsdóttur, sem m.a. hefur í nokkur ár verið formaður Mæðrastyrksnefndar Hafnarfjarðar. Hún fékk tilnefningu sem Hafnfirðingur ársins 2020.
Öll systkinin saman komin. F.v. Matthías, Tryggvi, Svandís, Atli og Ísak.
Táknræn mynd frá geðdeild Landspítalans. Tryggvi tók hana sjálfur.
Frá sýningunni ÉG í LitlaGallerýi nóvember sl.
Tryggvi ásamt ömmu sinni og mikillu stuðningskonu, Guðfinnu Vigfúsdóttur, þegar hann opnaði sýningu sína ÉG í LitlaGallerýi.
Tryggvi og Guðni Th. hafa verið málkunnugir síðan annar þeirra lék hinn í áramótaskaupinu 2016. Þá sendi Guðni Tryggva kveðju á Snapchat og sagði hann hafa náð sér ansi vel. Síðan hefur þeim orðið vel til vina. Tryggvi bauð Guðna á sýninguna sína sem svaraði: „Geggjað, ég mæti!“
Í hlutverki Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, í áramótaskaupinu 2016. Jón Gnarr var einn af höfundum skaupsins.
Eins og Tryggvi segir betur frá í viðtalinu, þá klæddi hann Litlu Hafmeyjuna í íslenska landsliðstreyju á EM í fótbolta 2020. Tekið skal fram að faðir hans tók þátt í prakkarastrikinu og þá vitum við hvaðan Tryggvi hefur það.
Með Jóel Sæmundssyni, vini sínum og samnemanda í leiklistarskólanum í London. Þarna eru þeir veislustjórar á árshátíð WOW air fyrir nokkrum árum.
Flugþjónninn með nokkrum af samstarfskonum sínum.
Útskriftarmynd frá 2011, með samnemendum sínum Önnu Margréti Káradóttur og Stefaníu Sigurðardóttur, „Stellu“.
Tryggvi og Sarah heitin í redneck-brúðkaupi sem þau fóru í hjá frænda hennar í Texas í maí 2012. Hún lést í mótorhjólaslysi í júlí sama hár.
Tryggvi tók upp lífsviðhorf Söruh að horfa jákvætt á lífið.
Við skilti sem er hjá Hale-búgarðinum, landareign fjölskyldu Söruh heitinnar í Texas. Myndin er tekin í maí 2012.
Tryggvi, ásamt Hale-hjónunum og móður sinni og ömmu. Hann hefur alltaf haldið góðu sambandi við þau og mikill kærleikur á milli.
Þegar Tryggva leiddist óskaplega þegar allir voru heima að vinna datt honum þessi óborganlegi gjörningur í hug sem vakti mikla athygli og gleði.
Meðal vinsælla „gigga“ sem Tryggvi hefur fengið á covid-tímum er fjar-bingóstjóri.
Lagið sem Tryggvi valdi í upphafi og lok viðtalsins er Þið eruð frábær, með hafnfirsku hljómsveitinni Botnleiðju.