Þjónustusamningur við Vinabæ um sértæka búsetuþjónustu í íbúðakjarna að Stuðlaskarði í Hafnarfirði var undirritaður í upphafi vikunnar að viðstöddu fjölmenni. Væntanlegir íbúar og aðstandendur mættu til undirritunarinnar til að fagna þessum tímamótasamningi um framtíðarbúsetu í Skarðhlíð, nýju og fjölskylduvænu íbúðahverfi í Hafnarfirði. Þetta kemur fram á vefsíðu Hafnarfjarðarbæjar. 

Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum 9. janúar síðastliðinn að ganga til samninga við Rekstrarfélagið Vinabæ. Markmið þjónustusamnings félagsins við Hafnarfjarðarbæ er að koma til móts við þjónustuþörf íbúanna og veita þeim bestu mögulega þjónustu í sértækri búsetu sem tök eru á að veita á hverjum tíma. Einstaklingarnir búa í dag í foreldrahúsum og stunda bæði vinnu og íþróttir auk þess að hafa öll lokið námi sínu í framhaldsskóla. „Hér er um tímamótasamning að ræða sem á sér ekki fordæmi á Íslandi og erum við í bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar ákaflega stolt af þessum samningi, framtaki íbúanna og aðstandenda þeirra. Ég vil þakka þeim sérstaklega fyrir frumkvæðið og eftirfylgnina. Þessi hópur einstaklinga sem þekkist vel innbyrðis ætlar nú að koma sér upp sínu eigin heimili í Skarðshlíð og fá til þess viðeigandi stuðning frá sínu sveitarfélagi. Það er frábært að sjá þessa hugmynd verða að veruleika“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar við undirritun þjónustusamnings.

Íbúar skrifa undir nýjan þjónustusamning við Hafnarfjarðarbæ. Myndir/Hafnarfjarðarbær

Rekstrarfélag Vinabæjar er hlutafélag í eigu íbúanna sem hefur þann tilgang að sjá um þjónustu við þá og mun það sjá um byggingu húsnæðisins að Stuðlaskarði. Félagið er rekið samkvæmt lögum nr. 38/2018 og reglugerðum sem ná yfir málefni fatlaðs fólks svo sem reglugerð nr. 370/2016 um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk og nr. 1054/2010 um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu.