Ævar Olsen, matreiðslumeistari á veitingastaðnum RIF í verslunarmiðstöðinni Firði, hefur verið í bransanum í 43 ár. Ástríðan er sannarlega enn til staðar hjá Ævari, því hann fær sífellt hugmyndir sem hann prófar sig áfram með og margar enda á matseðlinum. Nýjasta hugmyndin sem varð að veruleika er n.k. eins manns jólahlaðborð á stórum platta með dýrindis forrétti, aðalrétti og eftirréttum, á aðeins 5.900 krónur.
„Á meðan það er svona gaman í vinnunni, þá held ég ótrauður áfram. Hér er góður andi og ég er afar heppinn með starfsfólk líka,“ segir Ævar kátur, en hann hefur ávallt vanið sig á að tala um viðskiptavini sem gesti og gengur á milli borða til að athuga hvort allir séu sáttir. Veitingastaðurinn RIF var opnaður í júlí 2019 og fjöldi gesta frá upphafi eru orðinn 100 þúsund. Eins og á öðrum veitingastöðum þurfti að laga reksturinn að sóttvarnareglum á árinu og hefur Ævar lagt aukna áherslu á að hægt sé að sækja pantanir af matseðli og hefur verið brjálað að gera í því. Fram að jólum verður hægt að kaupa „gómsætt gjafabréf“ á 5000 krónur, sem er tilvalin gæða-upplifun í jólagjöf. Að sjálfsögðu verður hægt að nota gjafabréfið á nýju ári líka.

Alvöru hátíðarmatur á góðu verði
„Við höfum líka passað vel upp á allar sóttvarnir hér innanhúss, verið með grímuskyldu, haft nægt pláss á milli borða og öll svæði eru þrifin vel og sprittuð eftir að gestir hafa átt hér góða stund,“ segir Ævar, sem ávallt hefur lagt áherslu á gott verð á réttum af matseðli og að allir aldurshópar geti fundið eitthvað við hæfi. Á aðventunni mun hann bjóða upp á enn eina nýjungina, dýrindis þriggja rétta platta. „Þar erum við að tala um sko alvöru hátíðarmat, að okkar hætti. Forréttur: smjörsteiktar risarækjur í hvítlaukslegi með hvítlauksbrauði. Aðalréttur: grillað andalæri “Confit” með eplum, mangó, sultuðum rauðlauk, kartöflubátum og sérlagaðri andarjómasósu. Eftirréttur: tvenns konar góðgæti, epla crumble og berja-lagterta með lúxus sósu til að dýfa í eða hella yfir. Það er mjög sniðugt að tveir kaupi platta saman, létta drykki með og njóti þess að vera hér í verslunarmiðstöð Hafnfirðinga,“ segir Ævar hlakkar til að taka á móti gestum á aðventunni.

Myndir/OBÞ
Þessi umfjöllun er kynning.