Hafnfirski lisamaðurinn Kristbergur Ó. Pétursson gaf nýverið út sína þriðju bók, Efnistök, með safni verka sinna á árunum 2011 til 2017. Um er að ræða olíumyndir, vatnslitamyndir og ljóð. Árið 2017 urðu breytingar hjá Kristbergi; nýjar hugmyndir vildu fá sitt pláss.

„Þá fannst mér tímabært að gera upp við liðin ár, umrætt tímabil, á þennan hátt að gefa út bók. Hún er búin að vera í smíðum síðan um árið 2017, en þá bjó ég til frumdrög að bók í InDesign forritinu og lét prenta prufueintak. Það var ósköp einfalt í sniðum og útliti,“ segir Kristbergur.

Hann sýndi eintakið Magnúsi Val Pálssyni, gömlum vini og skólabróður úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands, forvera Listaháskólans, sem er þaulreyndur útlitshönnuður í prentiðnaðinum og hann bauðst til þess að sjá um útlit bókarinnar.

„Ég þáði það með þökkum. Síðan fékk ég þýðandann Önnu Yates til að þýða lesmál bókarinnar yfir á ensku. Kollegi minn í myndlistinni, Jón Thor Gíslason, kom með nafnið á bókinni. Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur las próförk og kom með hugmyndina að enska heiti bókarinnar: Painterly Matters. Þannig að óhætt er að segja að fagfólk í fremstu röð hafi komið að gerð bókarinnar og lagt mér lið.“

Ýmsar greinar og viðtöl eru í bókinni, oftast í tengslum við sýningar. Það gefur góða innsýn inn í hugmyndaheim verkanna og vinnuaðferðir Kristbergs, sem sjálfur gefur út bókina og sér um dreifingu hennar.

Þetta er þriðja bókin sem hann sendir frá sér með eigin verkum. Sú fyrsta heitir Grágrýti, gefin út 2007 og er fáanleg á lulu.com.,prentuð eftir pöntun. Bókin Málverk 2008-2011 kom út 2011 og er löngu uppseld. Hún var prentuð í Odda eins og Efnistök.

Eins og Fjarðarpósturinn hefur áður fjallað um, þá átti Kristbergur tvö verk í þáttaröðinni Ófærð 2.