Í dag opnar að Tjarnarvöllum 3, í sama húsnæði og Hótel Vellir, Vellir-Bistro, verulega notalegur veitingastaður með áherslu á glæsilegt hádegisverðarhlaðborð á virkum dögum. Verið er að leggja lokahönd á 900 Grill/Sportbar sem verður svo opnaður í rými við hliðina fljótlega. Rekstraraðilarnir eru hjónin Bergvin Oddsson og Fanný Rósa Bjarnadóttir, en með leigusamningi húsnæðisins taka þau einnig við rekstri bars og eldhúss hótelsins. Haukamaðurinn og handboltahetjan Gunnar Gunnarsson verður framkvæmdastjóri. Við heyrðum í Bergvini og hittum Gunnar.

Haukamenn fyrstu gestirnir

Blaðamaður var á staðnum þegar Gunnar opnaði Velli-Bistro og fylgdist með fyrstu viðskiptavinunum. Meðal þeirra voru félagarnir, Haukamennirnir og handboltakempurnar Jóhann Ingi Guðmundsson og Björgvin Þór Rúnarsson og Ágúst Jóhannsson, þjálfari Valskvenna. Þeir voru hæstánægðir með matinn og þjónustuna. „Bara kominn tími til að fá svona stað hingað!“ sagði Björgvin Þór með áherslu. Hinir tóku vel undir og Ágúst bauð enn betur að hætti handboltahetja: „Þetta var beint í mark! Við komum pottþétt aftur fljótlega.“ Mynd/OBÞ

Flestir sem hafa sótt Þjóðhátíð í Eyjum undanfarinn áratug eða svo kannast við veitingastaðinn 900 Grill og pizzurnar þar, en Bergvin og frú keyptu þann rekstur fyrir tveimur árum. Þá var enginn heimsfaraldur í kortunum og viðurkennir Bergvin að það ástand hafi eðlilega verið mikill skellur fyrir veitingafólk í Eyjum og erfitt að missa tvær Þjóðhátíðir sem eru gjarnan stór hluti af rekstri veitingastaða þar. „Við ákváðum að færa út kvíarnar eftir að hafa verið með það í maganum í töluverðan tíma. Við heyrðum af þessum stað við Tjarnarvelli og við Gunni fórum í vettvangsferð um svæðið sem hann þekkir svo vel. Eftir það biðum við ekki boðanna og settum okkur í samband við þau hjá Hótel Völlum,“ segir Bergvin.







Einkasamkvæmi og afmæli
Að ýmsu hafi verið að hyggja til að koma starfseminni af stað því Bergvin mun taka algjörlega við rekstri eldhússins og hótelbarsins, bæði fyrir sína viðskiptavini og hótelgesti. „Það verður þó líklega ekki miklu breytt inni, nema það mun ekki fara á milli mála að öðrum megin í húsnæðinu verður 900 Grill/Sportbar með skjám og sportið í beinni og hinum megin verður Vellir-Bistro. Þar munu gestir hafa næði frá sportbarnum.“ Reksturinn verði í raun þríættur; morgunmatur fyrir hótelgesti, grill/sportbar og fjölskylduveitingastaður. „Með hækkandi sól munum við svo að sjálfsögðu líka bjóða upp á einkasamkvæmi og afmæli. Hér verður allt til alls!“

Hefur gott fólk með sér
Fyrir þau sem ekki vita er Bergvin blindur en hefur ekki látið það stöðva sig við að standa í rekstri. Hann segist þekkja sín takmörk og styrkleika. „Ég er ömurlegur kokkur og yrði ekki góður í að búa til pizzur. Þær yrðu ekki flottar hjá mér,“ segir hann og skellihlær. „Ég byrjaði bara að brjóta saman pizzakassa því ég hafði enga reynslu í veitingarekstri eða að þjóna vissi ekki einu sinni hvað var að preppa. Svo smátt og smátt lærir maður á hlutina; bregður sér í þjónshlutverkið, blandar drykki, býr til sósur eða hnoðar deig. Pabbi kenndi mér líka mikilvægt mottó og það hefur fylgt mér alla tíð; maður á að fá fólk til að vinna með sér en ekki fyrir sig. Þetta hef ég alltaf gert og fæ bara gott fólk með mér,“ segir hann stoltur.

Stærri og fjölbreyttari matseðill en í Eyjum
Félagarnir Bergvin og Gunnar opnuðu Vellir-Bistro formlega í hádeginu í dag, 8. desember, og fóru af stað með kynningarverð, kr. 1900.- á hádegisverðarhlaðborði, alla virka daga. „Í boði verða alltaf fjórir til sex réttir, auk meðlætis og við verðum með enn stærri og fjölbreyttari matseðil en í Eyjum. 900 Grill/Sportbar opnar svo bráðlega og verður einnig opinn um helgar. Við munum leggja áherslu á að hafa opið allan ársins hring, utan örfárra stórhátíðardaga. Við sjáumst vel frá Reykjanesbrautinni og viljum endilega hvetja þau sem aka hana eftir útlandaferð að taka stuttan krók inn á Vellina og kíkja við hjá okkur og jafnvel grípa með sér pizzu heim. Allir eru hjartanlega velkomnir; Eyjafólk, Hafnfirðingar og allir hinir,“ segir Bergvin kátur að lokum og minnir á 900-Grill appið sem þegar er til og auðveldar pantarnir. Einnig er mikilvægt að minnast á að sérlega vel er passað upp á allar sóttvarnir með sprittbrúsum á víð og dreif og grímum í afgreiðslunni. Einnig er gott bil á milli borða, hátt til lofts og vítt til veggja.