Slökkvi – og hreinsunarstarf stendur yfir í vöruskemmu við Fornubúðir 3, en tilkynning um eld þar barst á fjórða tímanum í  nótt. Húsnæði fyrirtækjanna IP-úgerðar og IC Core er ónýtt. Sá hluti húsnæðisins þar sem Fiskmarkaður Suðurnesja er til húsa slapp við eldinn, en slökkvilið náði að koma í veg fyrir breiðslu elds þangað yfir. Allt lið Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var sent á vettvang og að auki kom aðstoð frá Brunavörnum Árnessýslu og Brunavörnum Suðurnesja. 

Í samtali við Fjarðarpóstinn á svæðinu um hádegisbilið sagði Skúli Theódór Haraldsson, starfsmaður Hafnarfjarðarhafnar, að ef eldurinn hefði náð yfir til hluta hússins þar sem fiskmarkaðurinn er, þá hefðu 150 plastkör brunnið með tilheyrandi mengun og tjóni. „Þegar ég vaknaði um klukkan 6 í morgun og leit út um gluggann á heimili mínu sá ég eldinn blossa upp aftur. Það var svoleiðis svört reykjarsúla upp í loftið. Ég er á vaktinni með vatnið og var látinn að það væri mikið í gangi.“ „Þetta hús fer ekkert í gagnið aftur,“ bætti annar starfsmaður Hafnarfjarðarhafnar, Páll Stefánsson, við.

Í viðtali við mbl.is segir Har­ald­ur Jóns­son, eig­andi alls at­vinnu­hús­næðis­ins, að hann hafi ekki frétt af brunanum fyrr en á átt­unda tím­an­um. Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri IP-útgerðar, segir í viðtali við RÚV  að um altjón sé að ræða og aldrei verði starfsemi í húsinu aftur.

Íbúi við Norðurbakka, sem Fjarðarpósturinn hitti á svæðinu, sagðist hafa vaknað við sírenurnar og bílaumferðina í nótt og verið um og ó þegar hann sá eldinn hinum megin hafnarinnar.

Lögregla og slökkvilið beindu þeim tilmælum til fólks að ef það fyndi reykjarlykt í húsum sínum ætti það loka gluggum og hækka í ofnum, vegna mengunar af völdum reyksins. Búið er að ráða niðurlögum eldsins og voru slökkviliðsmenn undir hádegi að slökkva síðustu glæðurnar sem leyndust hér og hvar í húsinu.

Aðeins átta mánuðir eru frá síðasta stórbruna í Hafnarfirði, að Hvaleyrarbraut 39, þar sem Glugga-og hurðasmiðja SB var til húsa.

Viðtal Fjarðarpóstsins við Lúðvík Geirsson hafnarstjóra Hafnarfjarðarhafnar verður birt fljótlega.

Meðfylgjandi myndir tók Olga Björt Þórðardóttir.

 

Svæðið séð ofan frá. Eins og sjá má er húsið stórskemmt og nánast ónýtt.

Slökkvistarf gekk eins vel og mögulegt var, að sögn fulltrúa slökkviliðs.

Mikið verk er framundan við hreinsun á svæðinu.

Þessa mynd af hafnarsvæðinu tók Guðmundur Fylkisson á Sjómannadaginn. Húsnæðið sem brann er hvíta húsið vinstra megin frá miðju.