Þrettán tilnefningar bárust um Hafnfirðing ársins fyrir árið 2020. Það er mesti fjöldi tilnefninga frá því að við hófum þessa hefð árið 2017. Meðal tilnefndra eru einnig dúett og félag. Frestur til að tilnefna rann út á miðnætti á Þorláksmessu og var auglýstur vel í jólablaði Hafnfirðings, sem og á Facebook. Allir geta tekið þátt í kjörinu hér og greitt sitt atkvæði fram að miðnætti á gamlársdag. Forsíðuviðtal verður við Hafnfirðing/a ársins í fyrsta tölublaði bæjarblaðsins 13. janúar 2021.

Þau hlutu tilnefningar:

Anna Eðvaldsdóttir, ljósmóðir og höfundur bókarinnar Fyrstu mánuðirnir. Mynd/aðsend

„Ég tilnefni hina afar fjölhæfu Önnu Eðvaldsdóttur, ljósmóður og höfund bókarinnar Fyrstu mánuðurnir. Hún hefur tekið á móti tæplega 1400 börnum, hefur sinnt heimaþjónustu eftir fæðingu barna hjá hundruðum hafnfirskra fjölskyldna, er endalaus viskubrunnur varðandi meðgöngu, fæðingu, barnauppeldi og hefur einstaklega kærleiksríka samveru.“

Anthony Bacigalupo, íbúi við Suðurgötu 9, sem m.a. hefur haft veg og vanda að jólaskreytingum, m.a. í Hellisgerði. Mynd/Anthony

„Mér finnst Hafnfirðingur ársins vera Anthony jólasnillingur sem hefur gert svo ótrúlega mikið og fallegt fyrir Hafnarfjörð.“

Arnar Gunnar Hilmarsson, skipverji á Júlíusi Gerimundssyni. Mynd/skjáskot af RÚV

„Hinn ungi og hugrakki Arnar Gunnar Hilmarsson, skipverji á Júlíusi Geirmundssyni. Hann mat tján­ingu sína á eigin veikindum og skipsfélaga sinna, vegna covid smits um borð, verð­mæt­ari en starf sitt. Strákurinn er annað hvort með stáltaugar eða svona svakalega ríka réttlætiskennd.“

Ásta Eyjólfsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Hafnarfjarðar. Mynd/aðsend

„Mig langar að tilnefna konu sem Hafnfirðingur ársins. Hún heitir Ásta Eyjólfsdóttir og er formaður Mæðrastyrksnefndar Hafnarfjarðar. Hún er algert gull af konu og er að vinna gríðarlega gott og óeigingjarnt starf í sjálfboðavinnu við að aðtoða þá sem þurfa á aðstoð að halda um jólin.“

Geir Gunnlaugsson hefur verið ötull við að taka myndir úr Hafnarfirði og gleðja með þeim meðlimi Facebook hópsins Hafnarfjörður og Hafnfirðingar. Mynd/aðsend

„Mín tilnefning um Hafnfirðing ársins er Geir Gunnlaugsson sem hefur glatt svo marga með myndum og sögum frá Hafnarfirði núna í vetur, á síðunni Hafnarfjörður og Hafnfirðingar.“

Guðmundur Fylkisson, lögreglumaður, fuglavinur og Hafnfirðingur ársins 2018. Mynd/OBÞ

„Það er engin tilnefning um Hafnfirðing ársins nema hafa Guðmund Fylkisson með. Það er bara þannig. Ef hann er ekki að bjarga börnum úr slæmum aðstæðum, þá eru það fuglarnir sem hann hlúir að.“

Hildur Guðnadóttir er margverðlaunað tónskáld. Mynd/aðsend

„Hildur Guðnadóttir hefur sýnt og sannað að hún er fremsta tónskáld sinnar samtíðar, ekki bara í Hafnarfirði og á Íslandi, heldur í heiminum. Hvílíkur árangur hjá henni og hún er mikilvæg fyrirmynd fyrir ungt tónlistarfólk.“

Jónatan Garðarsson, þegar hann leiddi eina af sögu- og menningargöngum á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Mynd/OBÞ

„Ég tilnefni Jonna [Jónatan] Garðars. Hann er meðal allra mikilvægustu núlifandi Hafnfirðinga. Fróðari og víðsýnni maður er vanfundinn og hann hlaut löngu verðskuldaða heiðursviðurkenningu á degi íslenskrar tónlistar í ár. “

Sara Björk Gunnarsdóttir hefur náð stórkostlegum árangri í knattspyrnu á árinu. Mynd/KSI

„Sara Björk Gunnarsdóttir knattspyrnukona og Haukakona á þetta svo mikið skilið. Hvílíkt ár hjá henni!“

Margrét Sesselja Magnúsdóttir og Stefán Helgi Stefánsson hafa staðið að verkefninu Elligleði í 11 ár. Mynd/af síðu Eilligleði

„Ég tilnefni þau Stefán Helga Stefánsson og Margréti Sesselju Magnúsdóttur sem saman hafa staðið að verkefninu Elligleði í 11 ár. “ „Stefán Helgi er tenórsöngvari sem hefur farið vikulega á dvalarheimili a höfuðborgarsvæðinu (og oft víðar þó það se ekki reglulega). Margret Sesselja hefur haldið ötullega utan um verkefnið. Þau fara aðallega á lokaðar deildir heilabilaðra þar sem Stefán syngur gömlu lögin og fær heimilismenn til þess að lifna við og sýna viðbrögð sem þau hafa kannski ekki gert í langan tíma. Verkefnið gengur eingöngu fyrir styrkjum og má þvi segja að um sjálfboðastarf sé að ræða, því þó að fáir eða engir séu styrkirnir dregur það ekki úr Sessu og Stefáni og þau halda ávallt sínu striki. Á covid timum hafa þau fundið lausnir til þess að gleðja heimilismenn þrátt fyrir heimsóknarlokanir og þa hefur Stefán mætt og sungið fyrir myndavél sem streymir tónleikunum inn á herbergi heimilismanna. Stefan Helgi vekur lukku fyrir framkomu og söng hvert sem hann fer. Hann hefur kennt í grunnskola í Hafnarfirði í rúm 10 ár og búið í bænum allan þann tima. Sessa býr einnig i Hafnarfirði og hefur gert alla sína ævi.“ 

Félagar úr Vinafélagi Krýsuvíkurkirkju, ásamt sviðsstjóra húsasafns Þjóðminjasafnsins. Frá vinstri: Sigurjón Pétursson, Jónatan Garðarsson, Magnús Gunnarsson, Guðmundur Lúther Hafsteinsson og Hrafnkell Marinósson. Myndin var tekin daginn sem endurbyggð Krýsuvíkurkirkja var flutt frá Tækniskólanum til Krýsuvíkur. Mynd/Eva Ágústa Aradóttir

„Mig langar að tilnefna Vinafélag Krýsuvíkurkirkju fyrir að ljúka þessu mikla og fallega verkefni, sem mun vonandi fá að standa í friði.“

Þórunn Eva G. Pálsdóttir hefur vakið athygli á málefnum langveikra barna og foreldra þeirra. Mynd/OBÞ

„Mig langar að tilnefna stórvinkonu mína og dugnaðarfork, Þórunni Evu G. Pálsdóttur, sem Hafnfirðing ársins. Þórunn hefur af einskærri elju og hugsjón komið málefnum langveikra barna og foreldra þeirra upp á yfirborðið og í umræðuna sem eflaust margir í slikri stöðu þakka, og hjá öðrum kveikt meðvitund og áhuga. Hins vegar er það Míu verkefnið hennar og frábær nálgun hennar að vekja athygli á og útskyra hvernig lyfjabrunnur virkar og aðstoða um leið þá sem það þurfa. Þetta hefur vakið gríðarlega athygli og er sko verðskuldað. Óeigingjarnt starf sem mer finnst lysa Hafnfirðingi ársins best!“

Örvar Þór Guðmundsson, stofnandi Samferða góðgerðarsamtaka, og Hafnfirðingur ársins 2017. Mynd/OBÞ

„Örvar Þór hjá Samferða á þetta skilið. Hann hefur styrkt ótal marga einstaklinga og fjölskyldur á undanförnum árum sem eiga um sárt að binda, með frjálsum fjárframlögum. Hann hringir í fólkið og einfaldlega millifærir inn á það. Hann er ekkert að flækja þetta.“

HÆGT ER AÐ KJÓSA MEÐ ÞVÍ AÐ SMELLA Á ÞENNAN HLEKK.