Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2020 er Bergrún Íris Sævarsdóttir, rithöfundur og teiknari, sem aðeins 35 ára að aldri hefur skipað sér í fremstu röð íslenskra barnabókahöfunda. Bergrún hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka árið 2019. Sem þakklætisvott til Hafnfirðinga mun Bergrún færa öllum deildum á leikskólum Hafnarfjarðar bókagjöf, samtals 170 bækur.
Við val á bæjarlistamanni Hafnarfjarðar er kallað eftir tillögum bæjarbúa og einungis listamenn með fasta búsetu í Hafnarfirði koma til greina. Bæjarlistamaður fær 1,5 milljónir í viðurkenningarskyni til að vinna áfram að list sinni. Í umsögn frá Hafnarfjarðarbæ segir m.a. að viðfangsefni Bergrúnar séu fjölbreytt, hún bendi á óvænta hluti í umhverfinu og hversdagslífinu og hjálpi ungum lesendum og eldri aðstoðarmönnum þeirra að sjá ævintýri allstaðar.

Sköpunarþörf blómstrar á óvissutímum
Í samtali við Hafnfirðing segist Bergrún vera innilega þakklát fyrir þennan mikla heiður. „Ég er djúpt snortin og virkilega stolt af því að vera bæjarlistamaður Hafnarfjarðar. Síðustu vikur hafa margir leitað skjóls í bókum. Enda veitir lestur ávallt ómetanlega hvíld frá amstri dagsins. Ég hef lesið, en líka skrifað og skapað og fundið hugarró í vatnslitum og pappír. Sköpunarþörf mannsins blómstrar ekki síst á óvissutímum. Þegar nýjar og erfiðar tilfinningar hellast yfir mannkynið eru það listamennirnir sem skrá tilfinningarnar með því að lyfta penslum, yrkja ljóð og töfra fram nýja tóna,“ segir Bergrún.
Bergrún Íris hefur skrifað 10 bækur um ævina og komið að gerð yfir 50 bóka, ýmist sem teiknari eða rithöfundur. Þá er hún myndhöfundur yfir fjölda bóka. Þá hefur hún myndlýst rúmlega 50 bækur fyrir Menntamálastofnun, til dæmis nokkrar heimilisfræðibækur, íslensku-, stærðfræði og lestrarbækur. Hún lauk prófi í listfræði frá Háskóla Íslands og síðar námi í teikningu frá Myndlistarskólanum í Reykjavík.

Hlakkar til að upplifa verk listafólks eftir samkomubann
Bergrún segir að núna sé sá tími þegar margir telji niður í grillveislur sumarsins en sjálf segist hún ekki síður hlakka til listaverkanna sem þessi tími muni ala af sér. „Ég bíð spennt eftir dansverkum, tónlist, málverkum, kvikmyndum og skáldsögum. Ég hlakka til að fara í leikhúsið og upplifa leikrit sem skrifað var heima hjá leikskáldi með fullt hús af háværum börnum og hálfkalt kaffi í bolla. Ég get varla beðið eftir að lesa ljóðin sem verið er að yrkja í eldhúsinu, á meðan súrdeigið lyftir sér. En á meðan ég bíð mun ég búa til bækur. Bækur fyrir mikilvægustu lesendurna, börnin okkar sem eru kannski hissa eða hrædd, reið eða leið. Börnin sem líður alls konar, rétt eins og okkur fullorðna fólkinu.“
Bergrún segist að lokum vona að flestir leikskólar eigi margar barnabækur: „Ef ekki, þá vona ég að bækurnar sem ég gef þeim verði upphafið að veglegu bókasafni inni á hverri deild. Önnur bókin er Næturdýrin, en henni fylgir ljúf tónlist eftir Ragnheiði Gröndal. Hin bókin heitir Ró, eftir Evu Rún Þorgeirsdóttur, með vatnslitamyndum eftir mig. Í Ró má finna einfaldar útskýringar á því hvernig við slökum á og finnum innri frið. Hafnfirðingar tóku mér opnum örmum fyrir 12 árum og hafa síðan þá sýnt og sannað að þegar á móti blæs slá hafnfirsk hjörtu í takt. Megum við sem flest finna hugarró og líða sem best, í besta bænum okkar.“
Þau sem hlotið hafa nafnbótina bæjarlistamaður Hafnarfjarðar frá upphafi:
- 2019 – Björk Jakobsdóttir, leikkona og leikstjóri
- 2018 – Björgvin Halldórsson, tónlistarmaður
- 2017 – Steingrímur Eyfjörð, myndlistarmaður
- Ekki voru útnefndir bæjarlistamenn á árunum 2015 til 2016
- 2014 – Andrés Þór Gunnlaugsson, tónlistarmaður
- Ekki voru útnefndir bæjarlistamenn á árunum 2010 til 2013
- 2009 – Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, söngkona
- 2008 – Sigurður Sigurjónsson, leikari
- 2007 – Jónína Guðnadóttir, myndlistarmaður
- 2006 – Elín Ósk Óskarsdóttir, söngkona
- 2005 – Sigrún Guðjónsdóttir (Rúna), myndlistarmaður
Myndir/Ólafur Már Svavarsson
Á forsíðumynd er Bergrún Íris ásamt sonum sínum, Darra Frey og Hrannari Þór Andrasonum.