Níu tilnefningar bárust um Hafnfirðing ársins fyrir árið 2021. Þetta er í fimmta sinn sem Hafnfirðingur ársins er kjörinn af lesendum bæjarmiðilsins. Hver sem er mátti tilnefna og frestur til þess rann út á miðnætti á Þorláksmessu. Athygli var vakin á því á vef og Facebook síðu Hafnfirðings og í hinum fjölmenna Facebook hópi, Hafnarfjörður og Hafnfirðingar. Allir geta tekið þátt í kjörinu með því að SMELLA HÉR og greitt sín atkvæði fram að miðnætti á gamlársdag. Aðeins er hægt að kjósa einu sinni í hverju tæki. Hlaðvarpsviðtal verður við Hafnfirðing ársins í blábyrjun nýs árs, 2022, og birt á vefsíðunni og á Spotify, undir „Plássið“.

Hér eru tilnefnd, í stafrófsröð:

Bjarni Freyr Þórðarson, félagsforingi Skátafélagsins Hraunbúa.

„Fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins og samfélagsins í heild. Allt í sjálfboðavinnu.“

Guðrún og Sjöfn Sæmundsdætur í Dalakofanum.

„Fyrir að halda uppi kvenfataverslun og þjónustu við konur í Hafnarfirði áratugum saman – og nú á tímum þegar kvenfataverslanir eiga undir högg að sækja.“

Hulda Hrund Sigmundsdóttir, femínisti og stjórnarkona í baráttuhópnum Öfgum.

„Fyrir þrotlausa baráttu gegn ofbeldi.“

Ína Lóa Sigurðardóttir, framkvæmdastýra Sorgarmiðstöðvar.

„Ína hefur frá fráfalli eiginmans síns fyrir um 9 árum stofnað samtökin Ljónshjarta (fyrir ungt fólk sem misst hefur maka og börn þeirra) og verið drifkraftur að stofnun Sorgarmiðstöðvarinnar. Ína Lóa hefur unnið að mestu í sjálfboðastarfi en hennar réttlætiskennd hefur greitt götur syrgjenda. Ínu fannst þegar eiginmaður hennar lést að ekki væri nægilega vel hlúð að þeim sem standa í sömu sporum og hún gerði. Hún fór því af stað með að stofna Ljónshjarta samtökin. Til að taka dæmi um það sem Ljónshjarta gerir í dag er að samtökin greiða allan sálfræðikostnað fyrir börn sem missa foreldri og þeim er komið strax að hjá sálfræðingi en áður fyrr þurftu þessi börn að bíða á biðlistum. Sorgarmiðstöðin er staðsett í Lífsgæðasetrinu og er gífurlega mikil lyftistöng í þjónustu við syrgjendur. Þar fer fram hópastarf sem er mikilvægur jafningjastuðningur. Ína Lóa var einnig í teymi fólks sem gerði sjónvarpsþættina Missi sem voru í sjónvarpinu í vetur. Í þáttunum er verið að fjalla um sorg og hvernig við förum ólíkt í gegnum það ferli. Ég gæti sagt svo miklu meira frá því sem Ína hefur gert fyrir syrgjendur. Ína er virkilega með hjartað á réttum stað og brennur fyrir að mýkja þá sáru lífsreynslu sem fólk upplifir við ástvinamissi. Ína berst fyrir réttlæti og úrbótum fyrir þennan hóp. 
Ína Lóa á svo sannarlega skilið að fá opinberlega viðurkenningu á hennar óeigingjarna starfi í gegnum árin.“ 

„Ína hefur lagt ómælda vinnu síðasta áratug til màlefna tengdu sorg, sorgarúrvinnslu og syrgjendum. Mikið af vinnunni hefur hún aldrei fengið greitt fyrir og gefið af sér til syrgjenda og samfélagsins. Ína er í dag starfandi framkvæmdastjóri Sorgarmiðstöðvar. Þar er hún ekki í fullu starfshlutfalli og gefur Sorgarmiðstöðinni mikið af tímanum sínum. Enn í dag leggur hún allt sitt í að bæta aðstæður syrgjendur, bæði með því að veita stuðning, finna fyrir þau stuðning og leita lausna í málum hvers og eins. Fyrir það stofnaði Ína ásamt fleiri ekkjum, Ljónshjarta. Það eru samtök fyrir ungar ekkjur, ekkla og börn í sorg.  Ína starfaði sem formaður Ljónshjarta í 6 ár, í sjálfboðavinnu. Síðan stóð hún að stofnun Sorgarmiðstöðvar ásamt fleirum. Starfaði þar fyrsta árið launalaus sem framkvæmdastjóri. Á þessu ári kom hún að gerð þáttanna Missir sem var sýndur í sjónvarpi símans. Ég tel að Ína eigi þennan heiður svo sannarlega skilið.“ 


Katla Hreiðarsdóttir, fata­hönnuður og eig­andi versl­un­ar­inn­ar Syst­ur og mak­ar.

„Fyrir að gera bæinn meira lifandi með sinni framkvæmd og hugmyndagleði, t.d. með litlu 17. júní garðsölunni sem svo sannarlega vatt upp á sig til styrktar góðu málefni.“

Sigurður Brynjólfsson, hinn eini sanni.

„Ætli hann sé ekki eini Hafnfirðingurinn sem þarf ekki rökstuðning.“

Tryggvi Rafnsson, leikari.

„Það er nokkuð auðvelt val, en Tryggvi hefur, eins og margur annar, verið að kljást við andleg veikindi. Hann stóð upp og tókst, með mikilli og góðri hjálp, að horfast í augu við veikindin, viðurkenna þau og vinna í þeim. Það skref gaf honum kraft til að berjast af einlægni og af krafti fyrir aukinni umræðu og stuðningi um og við veikindi sem ekki sjást daglega á fólki.“

„Tryggvi er afar mikilvægur Hafnfirðingur. Hann er, eins og nafn hans gefur til kynna, gríðarlega tryggur og traustur sem vinur, félagi, stuðningsmaður, fjölskyldumaður, fagmaður og samstarfsmaður svo ótal margra og hefur létt fjölda fólks lífið á erfiðum tímum. Bara með því að vera sá sem hann er. Svo steig hann það dýrmæta skref að opna sig upp á gátt með andleg veikindi sem höfðu hrjáð hann á bakvið grímuna og minnti landsmenn á hversu hættulega lúmskt þunglyndi er og dauðinn vingjarnlegur, eins og hann orðaði svo vel sjálfur. Eilífðarmeistari!“

Þórunn Eva G. Pálsdóttir, stofnandi Mia Magic verkefnisins.

„Fyrir störf hennar að Míu verkefninu.“

Örvar Þór Guðmundsson, stofnandi Samferða, góðgerðarsamtaka.

„Hann er aðalmaðurinn í fjáröflun fyrir sjúka sem þurfa aðstoð.“

Þau sem hingað til hafa verið kjörin sem Hafnfirðingar ársins:

2020: HILDUR GUÐNADÓTTIR TÓNSKÁLD
2019: LINDA HILMARSDÓTTIR OG JÓN ÞÓRÐARSON Í HRESS
2018: GUÐMUNDUR FYLKISSON LÖGREGLA
2017: ÖRVAR ÞÓR GUÐMUNDSSON STOFNANDI SAMFERÐA