Aðventan er byrjuð og framundan jólahátíðin með öllu því sem henni fylgir. Á þessu skrítna og jafnframt erfiða ári er það kærkomið að huga að jólunum og undirbúa þau. Því miður er hópur fólks sem fagnar ekki þessum árstíma, það er víða erfitt núna og fólk sér ekki fram á að geta haldið jólin hátíðleg, af ýmsum sökum.
Við í Hafnarfirði búum svo vel að hin ýmsu félagasamtök, fyrirtæki, einstaklingar og alls konar hópar hér í bæ styrkja Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar og gera okkur það kleift að geta hjálpað til við jólaaðstoð. Það er ómetanlegt að geta leitað til þeirra, ég veit hreinlega ekki hvernig nefndin gæti starfað ef ekki væru þessir öflugu styrktaraðilar.
Ekki má gleyma börnunum þau leggja sitt til, nokkrir skólar hafa safnað og styrkt nefndina. Það er ólýsanlegt að standa fyrir fram hóp af börnum og þakka þeim fyrir. Úr augum þeirra skín mikil ánægja og gleði með það að þau hafi hjálpað til svo einhver geti haldið jól.
Það eru þung spor að sækja um jólastyrk til að geta keypt jólamat og nauðsynjar. Jafnframt mikið þakklæti og það renna oft tár.
Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar hefur enga tekjuöflun og er sjálfstætt starfandi og nýtur engra styrkja sem mæðrastyrksnefndir í öðrum bæjarfélögum fá úr opinberum söfnunum, nema að það sé tekið fram. Það er sjálfboðavinna að starfa í nefndinni.
Fyrir hönd Mæðrastyrksnefndar Hafnarfjarðar þakka ég innilega fyrir þá aðstoð sem við höfum fengið. Það er ykkur að þakka að við getum hjálpað öðrum.
Með ósk um að þið eigið gleðilega og friðsæla jólahátíð.
Ásta Eyjólfsdóttir
Formaður Mæðrastyrksnefndar Hafnarfjarðar