Hafnfirðingur fjallar í tveimur tölublöðum um mikilvægi sjálfsþekkingar til aukinnar lífsánægju og fékk álit fólks sem hefur reynslu af því að veita fólki ráð í þeim efnum og draga fram það besta í hverjum og einum. Kristín Þórsdóttir, ACC markþjálfi og verðandi kynlífsmarkþjálfi hjá Eldmóðinum, sem hún á og rekur í Lífsgæðasetrinu í St. Jó, hefur verið mjög opinská m.a. með mikilvægi þess að virkja kynveruna í okkur og að sjálfstal snýst líka um að þykja vænt um líkamann.

Kristín segir marga hafa komið sín sem hafi týnt sér sem kynverur og misst tengsl við sjálf sig og áhuga á kynlífi. „Þetta virðist alltaf vera það fyrsta sem fer þegar nútímafólk er upptekið og undir miklu álagi. Svo er það bara ekkert rætt og ekkert gert til að hlúa að því. Kynlíf er ein af grunnþörfum mannsins og hvort sem það er stundað í einrúmi eða með öðrum, þá losnar um öll boðefni sem veita ánægju og vellíðan. Það hefur síðan góð áhrif á allt annað í lífinu.“ Sjálfstalið skipti svo miklu máli til að líða vel í eigin skinni og að vera í góðum tengslum við skynfæri sín, s.s. bera krem á sig eða þvo sér með virðingu og væntumþykju. „Svo má alveg faðma sjálfan sig og það er vel hægt. Setja hendurnar bara utan um sig beggja megin og þrýsta. Það losar um streituhormón,“ segir hún brosandi.

Opnumynd síðunnar hennar Kristínar, www.eldmodurinn.is.

Höldum dagbók um styrkleika okkar

Samanburður er algeng ástæða sjálfsniðurrifs og Kristín segir mikilvægt að leyfa sér bara að vera, njóta og skynja og láta ekki samanburðinn ná tökunum. „Það birta langflestir bara rjómann af því sem gerist í lífinu. Fólk eyðir orðið ótrúlega miklum tíma í að fylgjast með lífi annara á samfélagsmiðlum í stað þess að lifa eigin lífi. Við eigum ekki að gefa þessum hliðarveröldum allan þennan tíma sem skilur lítið sem ekkert eftir sig.“ Kristín segir fólk oft ekki átta sig á hvað það hefur marga styrkleika og það geti hjálpað að biðja þau sem við vitum að vilja okkur vel að skrifa niður þá styrkleika sem þau sjá í okkur. Safna þeim svo saman og hafa á sýnilegum stað á slæmum dögum. Slíkt geti alveg bjargað geðheilsu fólks, samhliða því að leggja áherslu á að verja tíma með fólki sem nærir hvert annað. „Svo er hægt að skrifa niður í dagbók á hverju kvöldi hvað við gerðum gott, bæði til að taka eftir því og muna það. Ímyndum okkur að við séum að skrifa eigin ævisögu þar sem hvert ár er einn kafli. Hvernig viljum við að hún verði? Verður lesturinn áhugaverður og skilur eftir sig?“, segir Kristín. 

Mynd/OBÞ