Margrét Brandsdóttir, yfirleitt kölluð Gréta, er mörgum Hafnfirðingum að góðu kunn en Margrét hefur þjálfað ungar knattspyrnukonur hjá FH um árabil. Þjálfarinn hefur lyft Grettistaki í yngriflokkastarfi FH og það eru ófáar kempurnar sem hafa stigið sín fyrstu spor undir handleiðslu hennar. Margrét gaf sér tíma til að ræða við okkur fyrir skömmu og það kom blaðamanni nokkuð á óvart að Gréta er ekki „Gaflari“ í hefðbundnum skilningi þess orðs.

„Ég fæddist í Vestmannaeyjum en fluttist til Hafnarfjarðar fimm ára gömul og lít auðvitað á mig sem Hafnfirðing fyrst og síðast. Ég er búin að vera í íþróttum síðan ég man eftir mér. Ég byrjaði hjá Geira Hallsteins á Víðistaðatúninu, fór þaðan í frjálsar og síðan í handbolta. Það gerist síðan sumarið 1971 að keppni fer af stað á Íslandsmótinu í fótbolta og handboltaþjálfarinn okkar, Kristófer Magnússon, skráði okkur til leiks. Ég man ekki alveg hvort að Kristófer bar það undir okkur stelpurnar hvort að við vildum vera með en við vorum a.m.k. allar í skýjunum að sú varð raunin.“

Íslandsmeistarar í fyrstu tilraun
Við tökum svo þátt í fyrsta Íslandsmótinu 1972 og urðum Íslandsmeistarar í fyrstu tilraun. FH á því fyrsta Íslandsmeistaraliðið í meistaraflokki kvenna í fótbolta. Það eru kannski ekki allir sem vita þetta en við stelpurnar í liðinu hittumst stundum og rifjum upp þessa skemmtilegu tíma,“

Viðhorfið til kvennafótbolta var allt annað á þessum árum og líklega þætti mörgum fáránlegt það sem Gréta og liðsfélagar hennar þurftu að sætta sig við.

„Fyrst máttum við ekki keppa í takkaskóm en á sama tíma spiluðu strákarnir auðvitað og æfðu í takkaskóm. Svo fengum við á endanum leyfi til að spila í takkaskóm en þá voru það einhverskonar gúmmítakkaskór sem okkur stóðu til boða, svo að það væri nú öruggt að við myndum nú ekki slasa okkur,“ segir Gréta hlæjandi.

„Okkur gekk mjög vel fyrstu árin. Helgi Ragnarsson tók við liðinu og lagði mikinn metnað í þjálfunina. Við fórum í eftirminnilega keppnisferð til Ítalíu sumarið 1975 og spiluðum þrjá leiki. Það er skemmtileg tilviljun að einn af andstæðingum okkar þar var Udinese en þar er einmitt FH-ingurinn Emil Hallfreðsson að spila í dag. Ég held að þetta hafi verið fyrstu leikir kvennaliðs frá Íslandi á erlendri grundu. Ég hætti svo þegar fjölskyldan byrjaði að stækka en dró aftur fram skóna á gamals aldri og spilaði aftur með meistaraflokki. Ég held að ég hafi leikið minn síðasta meistaraflokksleik þegar ég var orðin 39 ára, tveggja barna móðir. Á þessum árum var fótboltinn bara sumaríþrótt og því spilaði ég handbolta á veturna og á reyndar landsleiki í þeirri íþrótt. Sama gilti reyndar um mjög margar úr þessum þétta kjarna sem við höfðum hjá FH á þessum árum.“

Með flautuna í munnvikinu í 25 ár
„Þegar ég byrja að þjálfa, er ég með fimmta flokk kvenna en það var yngsti kvennaflokkurinn í FH. Ég byrjaði 1993 og hef þjálfað nánast linnulaust síðan. Mér telst til að þetta sé mitt 25. tímabil í þjálfun og það gæti bara vel verið einhverskonar heimsmet hjá kvenkyns knattspyrnuþjálfara“, segir Gréta brosandi.
„Ég bjó svo til sjötta flokk fljótlega og síðan fylgdu fleiri flokkar í kjölfarið með enn yngri iðkendum. Það voru ekki nema sjö stelpur sem voru í upphafshópnum hjá mér en þetta hefur heldur betur vaxið og dafnað,“ segir Gréta með stolti.

Þátttaka foreldra er gríðarlega mikilvæg. Mynd: Bergdís Norðdahl

Þrátt fyrir að Hafnarfjörður hafi skarað fram úr á flestum sviðum íþrótta, hefur kvennaknattspyrna í meistaraflokki verið svolítið hornreka í bænum. Gréta segir þessa staðreynd sorglega.

„Það hefur loðað við okkur í Hafnarfirði að vera með stóra og sterka yngri flokka en á leiðinni upp í meistaraflokk kvarnast úr hópnum og mörgum stelpum finnst meira spennandi að fara í Val, Stjörnuna eða Breiðablik. Það er bara þannig að þegar hæfileikaríkir leikmenn eins og t.d. Sara Björk Gunnarsdóttir sem er uppalin í Haukum ætla að taka næsta skref á sínum ferli, þurfa þær að fara í sterkara lið og æfa daglega með sterkari leikmönnum. Maður skilur þetta en samt er sárt að sjá flottar stelpur sem eru búnar að vera hjá mér síðan þær voru pínulitlar skottur, skipta um lið þegar þeim býðst eitthvað betra annars staðar. Félögin í Hafnarfirði þurfa bara að taka þá ákvörðun að gera þetta almennilega og styðja betur við stelpurnar þegar þær fullorðnast sem leikmenn. Því miður hefur kvennafótbolti í Hafnarfirði verið afgangsstærð í gegnum árin. Það má samt ekki sleppa því að minnast á að við höfum verið með frábæra foreldra sem hafa stutt við stelpurnar í gegnum súrt og sætt en þegar þær fara upp úr barna- og unglingastarfinu, verður erfiðara að halda utan um hópinn,“ bætir Gréta við.

Gréta hefur aldrei þjálfað stráka á sínum langa ferli.

„Það hefur aldrei verið neitt vandamál að fá þjálfara fyrir stráka og það er eins og margir haldi að það sé leiðinlegra eða jafnvel erfiðara að þjálfa stelpur. Raunin er sú að það er oft auðveldara að þjálfa stelpur en stráka. Þær fara betur eftir fyrirmælum og passa sig mjög mikið að gera það sem þjálfarinn vill. Strákarnir eru oft meira að gera hlutina eins og þeir vilja gera hlutina. Það hefur ekki staðið til að ég þjálfi stráka hér hjá FH, enda eru fjölmargir færir þjálfarar til staðar hjá félaginu.“

8.flokkur FH með Grétu. Íslandsmeistarar framtíðar? Mynd: Bergdís Norðdahl

Stelpurnar gefa endalaust til baka
Er þjálfarastarfið og allir klukkutímarnir sem fara í að standa með flautuna, ekkert að verða þreytandi eftir öll þessi ár?

„Ég er spurð ansi oft, Gréta, hvernig nennir þú þessu? Þetta er bara mín hreyfing og mín ástríða. Ég nenni ekki að hlaupa á einhverju hlaupabretti en mér finnst reyndar gaman að hjóla. Þar fæ ég samt ekki félagsskapinn sem er svo mikilvægur í þessu. Þetta er bara ótrúlega skemmtilegt. Stelpurnar eru endalaust að gefa mér til baka með því að vera glaðar og finnast skemmtilegt að mæta á æfingu hjá mér.“

Margrét Brandsdóttir er mjög sýnileg þar sem FH er með kvennalið skráð til leiks. Gréta hikar ekki við að fara inn á völlinn til að jafna leikinn ef henni finnst leikurinn of einhliða eða einhæfur. Það eru reyndar ekki allir þjálfarar og foreldrar sem tilheyra andstæðingum FH sáttir við þessi afskipti en Gréta lætur sér fátt um finnast.

 Gréta á þeim stað þar sem henni líður best. Mynd: Bergdís Norðdahl

„Þetta er kannski þroski sem þú færð með aldrinum. Úrslit leiksins skipta engu máli á þessum aldri, mestu máli skiptir að allar stelpurnar séu glaðar og það græðir nákvæmlega enginn á því að leikurinn vinnist eða tapast 10-0. Flestir þjálfarar eru á sömu bylgjulengd og þetta á að byggjast upp á því að öllum finnist skemmtilegt að spila fótbolta. Þannig höldum við fleiri stelpum áfram í sportinu og þetta skilar sér til framtíðar. Félagsfærnin skiptir mestu að mínu mati. Þær læra að vera saman í hóp, fara eftir fyrirmælum og hvernig maður tekst á við sigur eða tap. Við förum öll í gegnum lífið með fullt af töpum á bakinu og þátttaka í íþróttum undirbýr krakka betur fyrir lífið sjálft. Það er bannað að gefast upp, það kemur alltaf annar leikur og annað tækifæri,“

En hvenær verður kominn tími til að leggja þjálfaraskóna á hilluna?

„Ef þetta hættir að vera gaman, þá hætti ég að þjálfa. Maður á ekki að eyða tímanum sínum í hluti sem ekki eru skemmtilegir,“ segir Margrét brosandi að lokum.