Á dögunum kom út þriðja bók Þórunnar Evu Guðbjargar Thapa, Mía fær lyfjabrunn, sem öll börn fá gefins sem þurfa að fá lyfjabrunn vegna veikinda. Í samtali við Hafnfirðing segir Þórunn Eva viðbrögðin við bókinni hafa verið hreint út sagt stórkostleg. 

Hetjan Lilja Bríet nefndi lyfjabrunninn sinn Míu. Mynd/aðsend
Róbert og Adrian með sínar bækur. Mynd/aðsend.

„Ég trúi varla hversu mikið bókin hefur snert við fólki. Ég hef fengið sent svo mikið af fallegum skilaboðum og mörg þeirra fá mig hreint út sagt til að tárast. Þessi viðbrögð hafa algjörlega farið fram úr mínum björtustu vonum og ég er svo þakklát sjálfri mér að hafa látið verða af þessu, því þetta er svo þarft verkefni og hefði í raun átt að vera löngu búið að gera.“ Þórunn segir einnig vera algjöran draum að bókin skuli hjálpa mörgum, ekki bara börnum sem þurfa lyfjabrunn, heldur einnig ættingjum og vinum þeirra. „Núna langar mig bara að gera fleiri svona bækur því þörfin er klárlega til staðar,“ segir Þórunn Eva að lokum.

Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar í ár, Bergrún Íris Sævarsdóttir, teiknaðir myndirnar í bókinni og er Þórunn henni afar þakklát fyrir það. 


Myndir/Þórunn Eva