Grunnskólar Hafnarfjarðar brugðust vel við með því að laga skólastarfið að fordæmalausum aðstæðum í þjóðlífinu. Á skömmum tíma var öllu breytt; ný kennsluaðstaða, heimavinnu umbylt og breytt starfsumhverfi. Hér koma margir að verkum og mikil vinna liggur að baki enda að mörgu að huga. Það var strax svo ljóst að starfsfólk skólanna var einhuga um að gera gott úr hlutunum með velferð barnanna í fyrirrúmi. Að þau gætu áfram notið menntunar með minnsta mögulegu raski.
Hér skipta viðhorf um jákvæðni og umhyggju svo miklu máli hjá starfsfólki skólanna. Það er ekki sjálfgefið, en það höfum við foreldrarnir reynt á þessum tíma í ríkum mæli. Að skólarnir störfuðu áfram, börnin héldu sínu skipulagi, hittu skólasystkini og kennara. Það stuðlaði að betri líðan barnanna, dró úr kvíða og áhyggjum og þau fengu uppbrot í daginn og uppbyggjandi verkefni að vinna með.
Markviss viðbrögð skólafólksins skilaði árangri og án mikillar röskunar né kóronusmita. Þá gekk hratt og vel fyrir sig að koma skólastarfinu aftur í sinn gamla farveg. Það ber vitni um fagmennsku og vandvirkni sem hefur svo mikið um skólastarfið að segja – ekki aðeins þegar gefur á bátinn.
Kærar þakkir til kennara, skólastjórnenda og starfsfólks skólanna fyrir að standa vaktina með börnunum okkar. Við foreldrarnir og nemendur búum að því að í skólunum er vel að verkum staðið. Það verður svo ljóst, þegar á reynir.
Stefán Már Gunnlaugsson
Formaður foreldraráðs Hafnarfjarðar