Viðskiptavinum Krónunnar í Hafnarfirði og Garðabæ  gafst í mánuðinum tækifæri til að styrkja góðgerðarsamtök sem sjá um matarúthlutanir í sínu nærumhverfi í aðdraganda jóla. Samtals söfnuðust 975 þúsund sem rennur óskert til Mæðrastyrksnefndar Hafnarfjarðar. Auk þess styrkir Krónan nefndina í formi matarúttekta. 

Í fréttatilkynningu frá Krónunni segir að viðskiptavinir Krónunnar á landsvísu hafi alls safnað yfir 5 milljónum króna sem renna til ellefu samtaka um land allt og Krónan veitir að auki 6,5 milljónir króna til sömu góðgerðarsamtaka, auk tveggja samtaka til viðbótar. Heildarupphæðin nemur því 11,5 milljónum króna. Í söfnuninni bauðst viðskiptavinum að bæta við 500 krónum í lokaskrefi greiðslu í verslunum og Snjallverslun Krónunnar.

Haft er eftir Ásthildi Maríu Jóhannsdóttur, verslunarstjóra Krónunnar Flatahrauni, að þau séu í skýjunum með viðtökur viðskiptavinanna sem höfðu það val að leggja sitt af mörkum í aðrdragana jóla. „Þetta er í annað sinn sem bjóðum viðskiptavinum okkar að láta gott af sér leiða og er upphæð framlagsins í ár framar okkar björtustu vonum. Saman styrkjum við Mæðrastyrksnefnd Hafnarfjarðar sem sinnir mikilvægu og óeigingjörnu starfi við matarúthlutanir á svæðinu og þykir okkur afar vænt um þetta samvinnuverkefni okkar og viðskiptavina.”  

Mynd/aðsend.