Sundlaugar í Hafnarfirði verða opnar í samkomubanni. Gufuböð verða lokuð sem og gufubaðsklefar en rennibrautir og pottar verða opnir og er þeim tilmælum beint til gesta að virða tveggja metra regluna sem nú er í gildi.

Farið verður að tilmælum almannavarna um fjöldatakmarkanir en fækka þarf skápum sem eru í notkun vegna fjarlægðarreglna. Þá verður takmörkuð nýtingin á handklæðarekkum og sömuleiðis nýting á sturtum. Búast má við fjölgun heimsókna frá börnum vegna skerðingar á skóla og frístundastarfi. Almennar sundæfingar barna falla niður til 23. mars samanber tilmæli ÍSÍ.

Aukin þrif verða í sundlaugunum, starfsfólk lauganna mun spritta og þrífa snertifleti reglulega, bekki, borð, skápa, lykla, sápuskammtara, salerni og þess háttar. Þá verða gestir beðnir um að passa upp á fjarlægðartilmæli sóttvarnarlæknis um tveggja metra bil sín á milli  í búningsklefum, sturtum og pottum.

Ákvarðanir varðandi opnun sundlauganna verða endurskoðaðar eftir því sem fram líður og metið hvernig til hefur tekist út frá sóttvarnarsjónarmiðum.