Kjörnir fulltrúar upplifa góða tilfinningu þegar þeir finna fyrir áhuga og ástríðu íbúa fyrir þeim málum sem þeir vinna að. Með þessum orðum hefst grein eftir formann og varaformann fræðsluráðs sem birtist í gær, 2. mars. Í sömu grein er þakkað fyrir þau störf sem starfsmenn sveitarfélagsins leggja á sig. Það virðist hinsvegar ekki eiga að hlusta á rök fagfólks varðandi sumaropnun leikskóla frá og með sumrinu 2021.
Það á ekki að horfa til 390 undirskrifta starfsmanna sem mótmæltu þessum framkvæmdum, einnig með faglegum rökum. Það er ekki að ástæðulausu að áhyggjur vakni. Við erum sérfræðingarnir sem vinnum í leikskólunum og er það miður að ekki sé á okkur hlustað, þó talað sé um að leysa eigi þann vanda sem upp kann að koma. Við höfum aldrei talað um að börn gætu orðið einmana tengt sumaropnun, við höfum áhyggjur af félags- og tilfinningaþroska. Með orðinu einmana er snúið út úr okkar faglegu rökum. Áhyggjur okkar snúa síðan að öllum öðrum þroskaþáttum barna og börnum sem þurfa á sérstuðningi að halda.
Mikil óánægja hefur verið meðal starfsmanna leikskóla Hafnarfjarðar um framkvæmd þessarar ákvörðunar og hversu mikið lá á að samþykkja hana án samráðs. Með undirskriftum starfsmanna leikskólanna kemur bersýnilega í ljós að þeir eru ekki að óska eftir sveigjanleika þegar kemur að sumarorlofi þeirra sjálfra. Það sýnir hinsvegar að þeir setja hag barnanna ,,sinna“ í leikskólanum í forgang. Forgang, framar sínum eigin óskum og þörfum fjölskyldunnar sinnar.
Leikskólarnir hafa lokað í 4 vikur síðustu ár, áður hafa aðrar leiðir verið prófaðar, s.s. að loka í 2 vikur og foreldrar höfðu val um tvær vikur fyrir framan þær og tvær fyrir aftan. Þetta leiddi þó til þess að flestir fóru í frí í þeim sömu vikum og nú hefur verið lokað síðustu ár.
Í grein formanns og varaformanns fræðsluráðs kemur fram að mikil breyting hefur orðið á faglegu starfi innan leikskóla í landinu á undanförnum árum. Það er svo sannarlega rétt. Kröfur til leikskólanna hafa aukist, þeim er gert að vinna að margvíslegum verkefnum sem krefjast þess að fagfólk komi að. Hér getum við nefnt dæmi um snemmtæka íhlutun, læsisstefnu, menntastefnu og margt fleira. Það er þó ekki svo að um leið og kröfur hafa aukist séu leikskólarnir um leið að auka við sig fagfólki. Fáir útskrifast sem leikskólakennarar og nýliðun er af skornum skammti. Starfsmannavelta hefur verið mikil, erfitt er að fá starfsmenn til starfa og stöðugt er verið að setja nýtt starfsfólk inn í starfshætti leikskólanna með tilheyrandi álagi. Yfirleitt eru nýráðnir starfsmenn komnir til að stoppa stutt við, kannski eitt ár, tvö ár ef við erum heppin. Leikskólarnir í Hafnarfirði eru með lágt hlutfall faglærðra starfsmanna sem er miður. Fræðsluráð Hafnarfjarðar ætti frekar að vera að útfæra styðjandi leiðir til að bæta starfsaðstæður leikskólanna. Formaður og varaformaður fræðsluráðs vilja ekki draga úr gæðum leikskólastarfsins en með sumaropnun verður það óhjákvæmilega gert. Það verður ógjörningur að halda uppi faglegu starfi frá maí til september, faglegt starf fellur niður. Við gætum það mögulega ef við værum að uppfylla lög um að 2/3 starfsmanna væru faglærðir, þá fyrst gætum við verið að ræða sumaropnun. Áhyggjur fagfólks beinast jafnframt að einu leyfisbréfi sem nú gildir þvert á skólastig. Sumaropnun gæti leitt til þess að fagfólk sæi sér hag í að færa sig yfir á önnur skólastig og sækja þar í betri starfsaðstæður. Höfum við því miður nú þegar heyrt þær raddir.
Í gegnum tíðina hafa leikskólastjórar ekki komið sér undan breytingum eða að taka þátt í að framkvæma þær. Þegar kemur að ákvörðun sem við teljum að ógni faglegu starfi leikskólanna og hagur barnanna ekki hafður að leiðarljósi og fagleg rök virt að vettugi verðum við að leita allra leiða til að ná til eyrna fræðsluráðs og foreldra. Við hvetjum foreldra til að kynna sér, með ígrunduðum hætti, hvaða afleiðingar sumaropnun hefur í för með sér fyrir leikskóladvöl barnsins þeirra.
Inga Líndal Finnbogadóttir, leikskólastjóri
Lilja Kolbrún Steinþórsdóttir, leikskólastjóri
Telma Ýr Friðriksdóttir, leikskólastjóri
Alda Agnes Sveinsdóttir, leikskólastjóri