Myndina málaði Ingibjörg Ósk Sigurjónsdóttir.

Nú fer að líða að sumarfríum í skólum og þá á lesturinn oft til að gleymast enda margt skemmtilegt um að vera. Rannsóknir sýna að lestrarfærni barna getur tapast yfir sumarmánuðina og því er mikilvægt að viðhalda henni í sumarfríinu. Bókasafn Hafnarfjarðar vill hjálpa foreldrum við það með því að bjóða upp á sumarlestur líkt og undanfarin ár og hefst hann þann 3. júní og stendur til 16. ágúst.

Sumarlesturinn er fyrir öll börn og eru foreldrar og forráðamenn sérstaklega hvattir til þess að taka þátt með börnum sem ekki eru orðin læs með því að lesa fyrir þau.
Einnig eru foreldrar auðvitað hvattir til þess að lesa sjálfir sér til skemmtunar og koma með börnum sínum á bókasafnið í leit að góðum bókum.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í sumarlestrinum geta komið á bókasafnið og skráð sig til leiks. Þar fá allir lestrardagbók sem þeir skila svo til bókasafnsins að sumarlestrinum loknum. Allir sem skila inn lestrardagbók fá glaðning. Einnig er í boði að fylla út bókaumsögn fyrir hverja lesna bók og skila í póstkassa á barna- og unglingadeild. Á hverjum föstudegi er svo lestrarhestur vikunnar dreginn út og hlýtur hann verðlaun.

Þann 7. september verður svo haldin uppskeruhátíð þar sem góðum lestrarárangri sumarsins verður fagnað með grilluðum pylsum, leikjum og skemmtun. Dregið verður úr öllum lestrardagbókum sem hafa borist og verðlaun veitt.

Gleðilegt lestrarsumar!